136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að koma aðeins inn í þessa umræðu til að leiðrétta misskilning. Hv. þingmaður vísar til 5. gr. frumvarpsins. Í 5. gr., eins og lögin eru í dag, er þessi heimild til ráðherrans. Almenna reglan er sú að vigta eigi allan fisk sem íslensk skip veiða innan lands og vigta hann í innlendri höfn en síðan er heimild til að víkja frá því í einstökum tilvikum eins og nánar er kveðið á um.

Það frumvarp sem við fjöllum um setur frekari skorður við þessu, hvernig hægt er að heimila mönnum að flytja fiskinn óvigtaðan úr landi. Ástæðan er sú, sem hv. þingmaður veit, að það getur verið mjög erfitt að koma því þannig fyrir að allur fiskur sé vigtaður innan lands þegar menn eru t.d. að flytja fisk út í gámum eða sigla með hann á erlendan markað. Í frumvarpinu sem við ræðum hér er verið að setja inn nýjar kvaðir sem fela það í sér að með þann fisk skuli fara eins og kveðið er á um í frumvarpinu til þess að auðvelda aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að þessum fiski. Frumvarpið felur því ekki í sér að verið sé að opna nýjar heimildir fyrir ráðherrann, öðru nær. Verið er að þrengja þær heimildir og setja í lögin með hvaða hætti skuli farið með þennan fisk. Markmiðið er ósköp einfaldlega að auka aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að fiskinum.