136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:05]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta vafðist ekkert fyrir mér. Ég er tiltölulega vel læs, gæti verið betur læs. En þetta hljóðar svo:

„Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu.“

Ég fagnaði 1. gr., ég tel að hún sé af því góða. En ég harma þá breytingu að ráðherra geti með reglugerð heimilað þetta. Mér finnst þetta ekki vera nógu gott hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þessi þáttur og þessi nefnd sem hefur væntanlega samið frumvarpið, eða lagt til efnisatriðin í það — þetta er eins og það var. En setningin sem ég var að lesa fyrir þingheim þýðir að hæstv. sjávarútvegsráðherra getur mismunað mönnum í því hver fær að flytja út og hver ekki. Hún getur falið í sér verulega mismunun og tryggja þarf að allir standi jafnir í þessu eins og öðru. Það er tilfellið að sumir ráðherrar gangast upp í því að reyna að hafa eitt fyrir Jón og annað fyrir séra Jón. Það er það sem maður óttast við frumvarpið að þetta verði með þeim hætti að munur verði á Jóni og séra Jóni.