136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:09]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljóst að ég er hlynntur þeim lið að gefa íslenskri fiskvinnslu tækifæri til að bjóða í fisk áður en hann er fluttur út. Ég óttast það hins vegar þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur leyfi til að veita undanþágu frá þeirri reglu að fiskur verði fluttur út. Ég óttast það einfaldlega. Við sem höfum verið að fjalla um og hugsa um þessi sjávarútvegsmál í langan tíma höfum orðið varir við misnotkun á valdi sjávarútvegsráðherra. Veiðiheimildum er úthlutað til fárra útvalinna og þeim gefið tækifæri á meðan öðrum er leyft að éta það sem úti frýs. Þetta er kerfi sem við höfum búið við, mönnum hefur verið allsvakalega mismunað. Þegar þetta frumvarp er lagt fram óttast maður slíkar sérundanþágur sem hæstv. sjávarútvegsráðherra getur veitt mönnum.

Ég óttast að ákveðin grúppa manna í íslenskri útgerð fái oftar að flytja út fisk en aðrir. Ég óttast að sumir fái ekki að flytja út fisk en aðrir fái að gera það ef markaðsaðstæður eru þannig. Þetta verður með þeim hætti að takmarkaður útflutningur á markað í Grimsby og Hull verður til þess að verðið verður hærra þar en ella með takmörkun. Þeir sem fá að flytja út geta grætt verulega á því af því að tiltölulega lítið magn fer frá Íslandi á þessa markaði. Ég óttast þetta og tel að þessu eigi að breyta í frumvarpinu. Ég fagna því hins vegar að öllum skuli vera gert kleift að bjóða í þennan fisk, að íslensk fiskvinnsla eigi möguleika á þeim 50 þús. tonnum á ári sem fara út og íslenskt fólk hafi atvinnu af því að vinna þann fisk.