136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar athugasemdir hv. þingmanns um samkeppnisráð þá er í sjálfu sér ekki neinu við þær að bæta nema því að ég treysti ágætlega þeirri stofnun til að vega og meta þau mál sem þangað eru send. Þó að ég þurfi ekki sjálfur alltaf að vera sammála þeim þá er þetta það vald sem hægt er að skjóta málum til og fá úrskurð um og það komu úrskurðir í einmitt þessu máli svo að ég ítreki tilvitnun hér, með leyfi forseta:

„Samkeppnisráð beinir því þeim tilmælum til sjávarútvegsráðherra að taka fyrirkomulag um kvótaálag á ferskan fisk sem seldur er óunninn á erlendan markað til endurskoðunar þar sem gætt yrði þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin.“

Þetta var grundvallaratriði og skiptir miklu um þá niðurstöðu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra komst að. Ég er þeirrar skoðunar að það frumvarp sem hér liggur fyrir tryggi eins vel og hægt er aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að þeim afla án þess að skerða möguleika íslenskrar útgerðar til þess að fá sem mest fyrir afla sinn og um leið líka, rétt eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson benti sjálfur réttilega á, að sú staða kann að vera uppi að menn geti fengið og gert meiri verðmæti með því að senda fisk óunninn ísaðan á erlenda markaði en t.d. ákveðin vinnsluleið gæti leitt til hér.

Hvað varðar fiskmarkaðina er augljóst að þetta frumvarp er til þess fallið að auka magn á fiskmörkuðum á Íslandi. Það eykur möguleika fiskvinnslunnar til að kaupa í gegnum fiskmarkaði fisk sem annars hefði farið beina leið á fiskmarkaði erlendis. Annað gildir auðvitað um fisk sem hefur verið vigtaður hér á landi og hefur verið vigtaður samkvæmt meginreglu þess frumvarps sem hér er verið að fjalla um. Um hann gilda önnur lögmál, þ.e. að útgerðarmaðurinn og sjómennirnir hafa þá allt aðra stöðu hvað varðar möguleika þeirra til að annaðhvort ákveða að vinna þetta í sínu eigin fyrirtæki eða selja það á aðra markaði vegna þess að þá hefur aflinn verið vigtaður hérlendis.