136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:38]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson telur að þetta muni auka fisk á fiskmarkaði. Það er reyndar ekki alveg útilokað að það muni gera það en það er samt ekki víst að fiskvinnslufyrirtæki, sem eru með fiskvinnslu og útgerð, muni auka framboð sitt með þessum hætti inn á fiskmarkaði og jafnvel ólíklegt. En þær útgerðir sem eru ekki með fiskvinnslu munu væntanlega setja meira af fiski inn á íslensku fiskmarkaðina og það er auðvitað jákvætt.

Það eru sérstakar aðstæður núna í landinu og þó svo að kannski megi benda á að í sumum tilfellum væri hægt að fá meira fyrir heilan fisk en jafnvel unnin flök þá erum við í þeirri stöðu núna að við horfum fram á hluti sem við höfum aldrei séð áður. Við horfum fram á alvörukreppu og þess vegna verðum við að reyna allar leiðir sem eru færar til að auka bæði aflaverðmæti og útflutningstekjur af sjávarafurðum. Ég vil benda á að það er til apparat í íslenskum sjávarútvegi sem heitir verðlagsstofa og þar eru ákveðin fiskverð fyrir útgerðir sem eru í fiskvinnslu og útgerð saman. Ég kem kannski inn á það í ræðu minni á eftir hvaða sjón ég vildi hafa í íslenskum sjávarútvegi varðandi þessi mál.