136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðin verður að hafa sjálfsvirðingu til að afþakka það að bresku herþoturnar komi hingað til lands. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það að henda hundruðum milljóna í gagnslaust loftrýmiseftirlit ætti að vera forgangsatriði í sparnaði. Við eigum að taka þetta allt, það hefur enga þýðingu, það er enginn sem ógnar loftrými Íslands. Þetta er bruðl sem engin ástæða er til að viðhafa og eins og mál standa núna kemur sérstaklega ekki til greina að hafa þetta áfram. Það verður að taka á því í fjárlögum.

Það sem við stöndum frammi fyrir núna er spurningin um hvaða sjálfsvirðingu við höfum sem þjóð. Höfum við virkilega ekki meiri sjálfsvirðingu en þá að við ætlum að sætta okkur við að þjóð sem algerlega að ástæðulausu beitti hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi og íslenskum fyrirtækjum, setti Ísland í hóp með Osama bin Laden og félögum, sé fengin með sín tæki, tól og hergögn til að gæta loftrýmis Íslands? Að breskir hermenn komi hingað, hafi hér aðsetur með sig sjálfa, vopn sín og verjur? Ætlum við virkilega að sætta okkur við það? Ég sætti mig ekki við það. Ég tel að við eigum að taka ákveðna afstöðu til Breta meðan þeir hafa ekki breytt afstöðu sinni gagnvart okkur. Það má hins vegar ekki setja alla í sama hóp. Það er mjög vafasamt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði áðan, að setja alla í sama hóp eins og mörgum hættir til, t.d. að setja alla alþingismenn í sama hóp þótt það séu í raun bara ríkisstjórnarflokkarnir sem eiga að sæta ábyrgð vegna þeirra efnahagsþrenginga sem við erum í. Við eigum ekki að setja allar NATO-þjóðir eða allar Evrópusambandsþjóðir í sama hóp og Breta vegna þess að það er rangt. Við ætlum okkur ekki aftur í Norður-Kóreustríðið. (Forseti hringir.) Við verðum að eiga vini en Bretar eru ekki vinir okkar í dag.