136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á þessu. Ég taldi bara svo sjálfgefið að ég mundi svara spurningu sem til mín væri beint. Ég þakka fyrir að hafa fengið orðið.

Spurt er: Hvernig á að deila kvótanum út ef gefinn verður út aukakvóti vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í samfélaginu? Það liggur í augum uppi í huga mínum: Þetta er sameign þjóðarinnar og við gerum þetta í þágu lands og þjóðar þannig að við hljótum og reynum að fá sem mest fyrir aflann. Við hljótum að setja hann á almennan markað. Það er eins og gerist með aðrar eignir íslenska samfélagsins, ef deila á kvótanum út er í mínum huga sjálfsagt að hann fari í eðlilegt uppboðsferli.

Fyrst hv. þm. Grétar Mar Jónsson vekur máls á þessu eru aðrar spurningar sem vaknað hafa eftir að bankarnir voru þjóðnýttir og eru orðnir eign íslensku þjóðarinnar. Segjum sem svo að banki sitji uppi með útgerð sem fer á hausinn. Hann situr þá allt í einu uppi með þrjú eða fjögur þúsund tonn af þorskígildiskvóta. Þá má líka spyrja: Hvað á að gera við fiskinn, hvað á að gera við aflaheimildirnar? Á bankastjórinn að ráðstafa því eða hverjir eiga að gera það? Það er mjög verðugt að svo sé spurt eins og hv. þingmaður gerði og við hljótum að velta svarinu fyrir okkur.

Svarið er að ef gefinn verður út sérstakur kvóti vegna efnahagsráðstafana verður það gert undir allt öðrum formerkjum en verið hefur og því hlýtur hann að fara á markað. Í mínum huga er það svo.