136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að í raun er þverpólitísk samstaða um að það sé mjög óheppilegt að Bretar komi hingað til lands til að taka þátt í loftrýmisæfingum. Þótt enginn fulltrúi Samfylkingarinnar hafi komið sérstaklega í þessa umræðu liggja hér fyrir ummæli þástarfandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem hann hefur margítrekað og ekki skipt um skoðun í því efni eftir því sem ég best veit. Ég tel því að hér sé þverpólitísk samstaða um þessa afstöðu.

Hv. þm. Bjarna Benediktsson hélt því fram að það hefði verið að okkar frumkvæði sem Bretarnir kæmu hingað til að sinna loftrýmisæfingum. Það er út af fyrir sig rétt en það getur þá líka verið okkar frumkvæði að hafna komu þeirra við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi í samskiptum okkar við Breta, það hlýtur að vera á okkar færi að gera það. Það var sérstaklega ánægjulegt að heyra í máli eins hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins — ég gat ekki séð annað en að þar glitti í andstöðu við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Velkominn í hópinn, hv. þm. Jón Gunnarsson.

Það er alveg ljóst að úr þessari stuttu umræðu berast algjörlega skýr skilaboð frá Alþingi til stjórnvalda, bæði til íslenskra stjórnvalda en líka til Breta um að ekki sé skynsamlegt að fá Bretana hingað til lands við þessar aðstæður. Það er óheppilegt og mundi misbjóða þjóðarstolti Íslendinga. Þess utan hefur hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagt að það sé sjálfgefið miðað við stöðu mála nú að endurskoða þá fyrirætlan þegar við leggjum sérstaka áherslu á efnahagslegar varnir við þær aðstæður sem við búum við núna.

Ég tel því mikilvægt að hv. formaður utanríkismálanefndar taki af skarið hvað það varðar í umræðunni núna á eftir og lýsi þeirri skoðun sinni að það sé ekki bara óheppilegt að Bretarnir komi heldur sé það ástæðulaust. Þeim skilaboðum verði síðan komið af hans hálfu til utanríkisráðuneytisins í kjölfar þessarar umræðu.