136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að við höfum ekki fengið nein svör við þeirri fyrirspurn sem beint var að hv. formanni utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssyni. Svarið var eins og ekki-frétt eða ekki-svar. Sagt var: Jú, það er óheppilegt að Bretarnir komi en við erum nú í NATO og báðum þá eiginlega um að koma. Ég held að hv. formaður nefndarinnar verði að gefa aðeins skýrari svör ef umræðan á að skila einhverju.

Það hefði verið spennandi, virðulegur forseti, að fá svar frá hæstv. iðnaðarráðherra sem sat í þingsal við upphaf umræðunnar og vissi að hann mundi fá fyrirspurn. Þó að það sé ekki skylda ráðherra að vera viðstaddir þennan lið var hæstv. iðnaðarráðherra samt hér við upphaf umræðunnar. Það er rétt sem fram hefur komið, hæstv. ráðherrann hefur verið mjög beittur í þessu máli og talað um að það sé alls ekki við hæfi að Bretarnir komi eins og staðan er núna. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur verið starfandi utanríkisráðherra síðustu daga. Hann er reyndar nýbúinn að afsala sér því. Ef það á að fá Bretana til þess að hætta við að koma er það ekki gert á síðustu sekúndu, það er bara ekki gert þannig, virðulegur forseti.

Mér skilst að Bretarnir séu nú að pakka í gáma og undirbúa komu sína. Þess vegna hefði verið fróðlegt að vita hvort hæstv. starfandi utanríkisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra, hefur undirbúið það í stöðu sinni sem starfandi utanríkisráðherra. Það hlýtur að vera, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra hafi gert það. Það hefði verið rétt að það kæmi fram því að þá vissum við öll sem hér erum að Bretarnir væru ekkert á leiðinni. Það er því mikill skaði að hæstv. starfandi utanríkisráðherra skuli ekki hafa verið hér til að svara þeirri spurningu sem ég vildi beina að honum núna, hvort hann hafi undirbúið þetta mál eða ekki.