136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst mestu máli skipta í tengslum við þessa umræðu að átta sig á því að við eigum í viðræðum við Breta til úrlausnar á þeim ágreiningsefnum sem uppi hafa verið á milli þjóðanna. Á meðan í gangi eru virkar viðræður finnst mér vafasamt af okkur að hlaupa til og grípa til einhverra ráðstafana sem geta mögulega sett þær viðræður í uppnám.

Hins vegar ef þær eru strand og sjónarmið okkar fá engan hljómgrunn get ég sagt það fyrir mitt leyti að mér finnst ekki koma til greina að Bretar komi hingað til þess að sinna loftrýmisvörnum. Ég skynja það í þessari umræðu að menn blanda dálítið saman lögum um Varnarmálastofnun, því fyrirkomulagi sem við höfum komið á í loftrýmisgæslu okkar, og þessari einstöku viðveru Bretanna sem fyrirhuguð er í næsta mánuði. Við þurfum að geta aðskilið það í umræðunni, hér er um að ræða hvor sinn hlutinn.

Spurningin sem beint var til mín snerist fyrst og fremst um fyrirhugaða komu Bretanna og ég hef lýst sjónarmiðum mínum varðandi hana. Ég vil jafnframt nota tækifærið til þess að taka undir með þeim sem segja að við eigum að horfa til Varnarmálastofnunar og þess tilkostnaðar sem við höfum stofnað til vegna ytri varna okkar þegar við skoðum með hvaða hætti við getum dregið saman í ríkisútgjöldum. Ég tek heils hugar undir með þeim sem segja að sá þáttur ríkisútgjaldanna eigi ekki að vera undanskilinn í þeirri skoðun.