136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er enn fullyrt og ég segi: staðhæfulausar fullyrðingar. Það er ekkert á bak við þessi orð, engin skjöl, engin gögn, ekki neitt.

Allir sammála um þessa leið. Því fer bara víðs fjarri. Flestir lögmenn sem ég hef talað við og fulltrúar réttarfarsnefndar eru allsendis ósammála þessari leið. Það sé verið að taka mikla áhættu. Það sé verið að samþykkja frumvarp án þess að skoða það í víðu samhengi við önnur fyrirtæki sem kunna að verða gjaldþrota. Síðan er fullyrt að það muni verða eignabruni og þar fram eftir götunum. Þetta eru sömu staðhæfingarnar sem ekki hafa verið studdar rökum eða skjölum.

Ég leyfi mér að ítreka það, hv. þm. Birgir Ármannsson, að innan gjaldþrotaskiptaferlis er hægt að tryggja þetta allt saman. Það liggur fyrir. Tilgangur gjaldþrotaskiptaferlis er að hámarka og varðveita eignir. Ég ítreka að það ferli er gegnsærra og mun betra. Innan gjaldþrotaskiptaferlisins er líka hægt að verjast ásókn erlendra kröfuhafa og úrræðin eru betri ef eitthvað er. Þeim mikilsverðu spurningum sem ég hef varpað fram hefur ekki verið svarað vegna þess að nefndin hefur ekki leitað umsagna, ekki kallað fyrir sérfræðinga. Hún hefur ekki einu sinni gefið réttarfarsnefnd kost á að funda um málið og skoða það. Þetta er allt með miklum ólíkindum og ég verð að fordæma þessa málsmeðferð.