136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:46]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get sagt eins og hv. þm. Atli Gíslason að við frjálslynd sátum hjá við afgreiðslu neyðarlaganna á sömu forsendum og vinstri grænir gerðu en þó til viðbótar vegna þess að við töldum okkur ekki hafa þær upplýsingar í höndum sem réttlætt gætu að við segðum já við afgreiðslu neyðarlaganna. Við sátum hjá. Við bárum ekki ábyrgð á því ástandi sem komið er, við berum ekki ábyrgð á því efnahagsöngþveiti sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa leitt yfir þjóðina. Það var ástæðan, við vildum í sjálfu sér ekki hindra framgang þeirrar lagasetningar sem var hugsanlega fær til að bjarga þó því sem bjargað var en við gátum ekki greitt því atkvæði að öðru leyti.

Hvað er svo aðalatriðið í sambandi við þá lagasetningu sem hér er um að ræða? Eftir langa ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar þar sem hlaupið var úr einu í annað skorti á að menn greindu á milli aðalatriðis og aukaatriðis. Ég tek það fram að ég er samþykkur nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar, ég gerði fyrirvara í nefndinni um ábyrgðarhlut þeirra sem fengnir væru til að hafa með fjármálafyrirtæki að gera. Gerð var breyting sem liggur fyrir í breytingartillögum í 1. tölulið d sem ég sætti mig við. En aðalatriðið í þessari lagasetningu er að heimila skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir að starfsleyfi fjármálafyrirtækisins hafi verið afturkallað. Og í öðru lagi að lengja fresti og auðvelda tilkynningar um það sem þar er um að ræða.

Þetta á að reyna, þetta er markmiðið með þessari lagasetningu. Þá er spurningin hvort handverkið er eðlilegt, þ.e. hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir er eðlilegt og í samræmi við það sem ætlast er til, hvort það brjóti gegn einhverjum ákvæðum, eins og hv. þm. Atli Gíslason minntist á áðan, brjóti hugsanlega gegn jafnræðisreglu. Að sjálfsögðu verður að skoða öll slík atriði því að lög verða að standast ákvæði stjórnarskrár. Ég tek það fram að ég tel að lagasetningin, eins og hún lítur út með þeim breytingartillögum sem meiri hluti viðskiptanefndar gerir tillögu um, brjóti ekki gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár, m.a. vegna þess að hún tekur til allra einsleitra fyrirtækja hvað þetta varðar. Með tilliti til þess er því ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða að mínu viti.

Ég tel að þau viðbrögð sem hér um ræðir og það að kalla erlenda kröfuhafa að borðinu komi allt of seint fram, í raun hefði átt að kalla þá miklu fyrr að borðinu og áður en neyðarlögin voru sett. Það hefði virkilega orðið til þess að um raunverulega jákvæða viðleitni væri að ræða til að koma í veg fyrir eignabruna, koma í veg fyrir það efnahagshrun sem er orðið að veruleika. Þar kom í ljós ráðaleysi stjórnarflokkanna að grípa ekki til aðgerða, koma ekki með viðbrögð fyrr en of seint eins og í öllum þessum tilvikum. Þau vandamál sem um er að ræða bentum við ítrekað á í ræðustól Alþingis, stjórnarandstaðan, að dökk ský væru að hrannast upp við sjóndeildarhring og hinir svörtu riddarar efnahagslægðar væru að geisa af stað og við því yrði að bregðast. Ítrekað bentum við ríkisstjórninni á þetta og vöruðum hana við. Það kallaði ekki á nein viðbrögð og hæstv. forsætisráðherra sagði síðastliðið sumar, aðspurður um hvers vegna heimild Alþingis til að taka erlent lán væri ekki nýtt, að e.t.v. væri best að gera ekki neitt.

Það hefur heldur betur sýnt sig að sú niðurstaða hæstv. forsætisráðherra var röng. Það hefði þurft að gera eitthvað í staðinn fyrir að gera ekki neitt. Þá vil ég ítreka það sem hefur aftur og aftur komið fram í umræðunni að íslensku fjármálafyrirtækin sem nú hafa verið tekin, þ.e. Kaupþing banki, Landsbanki Íslands og Glitnir banki, áttu nóg af íslenskum krónum eftir því sem fullyrt er en þau vantaði gjaldeyri. Af hverju vantaði þau gjaldeyri? Þau vantaði gjaldeyri til að standa við erlendar skuldbindingar sínar vegna þess að lánalínur lokuðust eftir að Lehman Brothers fór á hausinn og Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin höfðu ekki gætt að þeirri frumskyldu sinni að hafa nægjanlegan gjaldeyri tiltækan til að geta veitt eðlilega fyrirgreiðslu. Meðal annars vegna þess að Seðlabankinn og ríkisstjórnin voru sammála um það síðastliðið sumar að það besta sem hægt væri að gera í stöðunni væri að gera ekki neitt. Þegar við stöndum síðan frammi fyrir því ástandi sem hér er um að ræða er alveg makalaust að stjórnarliðar skuli ekki viðurkenna ábyrgð sína á því, ástand sem þeim verður fyrst og fremst kennt um.

En við getum aldrei farið til baka í mannkynssögunni, við getum aldrei snúið tímanum við og við erum komin á þann stað þar sem spurt er: Með hvaða hætti og hvernig getum við lágmarkað tjónið, takmarkað það tjón sem verður? Og þá er spurningin: Höfum við möguleika á því að bjarga verðmætum? Ég tel svo vera. Ég tel að það geti verið raunhæfur möguleiki til að bjarga verðmætum að fá erlenda lánardrottna sem og aðra stóra lánardrottna að borðinu — og þeir sem mestu máli skipta varðandi gömlu viðskiptabankana eru að sjálfsögðu erlendu lánardrottnarnir — að fá þá til að koma til að athuga hvort þeir vilji ásamt öðrum innlendum aðilum aðstoða við að gera hugsanlega takmarkaðar eignir í dag að raunverulegum verðmætum í framtíðinni. Þá skiptir líka máli hvaða stefnu við ætlum að taka.

Ég sem málsvari neytenda hef talið mikilvægt — vegna þess að lánamál okkar hafa verið í ákveðnu öngþveiti, íslenskir lántakendur hafa þurft að greiða mun hærri vexti, verðtryggingu, en gerist í okkar heimshluta — að við fengjum raunverulega samkeppni á bankamarkaði þannig að ungt fólk á Íslandi, íbúðarkaupendur og aðrir nytu sambærilegra lánakjara og um ræðir í okkar heimshluta. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort nauðsyn væri á því að við fengjum erlent fjármálafyrirtæki til að koma hér á raunverulegri samkeppni. Ég tel að svo geti vel verið og því kunni að bjóðast ákveðin tækifæri í því að fá hingað erlend fjármálafyrirtæki sem hafa hagsmuna að gæta vegna þess að fyrirtækin eigi inni í viðkomandi lánastofnunum sem nú gætu fallið undir það lagafrumvarp sem hér er um að ræða, að þau komi að, taki þátt í og komi þess vegna jafnvel að áframhaldandi rekstri þess eða þeirra fjármálafyrirtækja sem um gæti verið að ræða.

Ég sé ákveðna möguleika felast í því að samþykkja þetta frumvarp og þess vegna styð ég það. Að mínu mati hefði átt að beita þessu og fara þessa leið strax, byrja á henni án nokkurs fyrirvara en setja neyðarlögin til vara ef hitt hefði ekki dugað, en úr því sem komið er förum við ekki aftur á bak í tímanum heldur gerum það besta úr stöðunni eins og hún liggur fyrir núna. Það finnst mér vera grundvallaratriði.

Ég mótmæli því sem kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan þegar hann talaði um að með frumvarpinu sé verið að fara að vilja eða hagsmunum erlendra kröfuhafa. Ég tel að ekki sé um neitt slíkt að ræða. Þetta hefur fyrst og fremst með það að gera að við gætum okkar eigin hagsmuna, hagsmuna sem þjóðar. Við erum að hugsa um að það tjón sem þegar hefur orðið verði eins lítið og mögulegt er. Því miður er það svo að ríkisstjórnin hefur ekki greint Alþingi frá því hvað um geti verið að ræða, hvaða vandamál geti verið um að ræða í efnahagslífinu, hvaða skuldbindingar við þurfum hugsanlega að taka á okkur. Almenningur í landinu gerir ráð fyrir því að þarna sé um verulegan skaða að ræða sem nemi hundruðum milljarða íslenskra króna. Um það get ég ekkert sagt eða fullyrt meðan engar haldbærar upplýsingar liggja fyrir um það atriði en hvað sem því líður skiptir máli að þessi fjárhæð verði sem lægst. Ég er tilbúinn að gera það sem þarf, að sjálfsögðu innan lagalegra og siðrænna marka, til að tjónið verði sem minnst.

Hv. þm. Atli Gíslason gerði í minnihlutaáliti sínu og ræðu sinni áðan íslensku gjaldþrotaskiptalögin að sérstöku umtalsefni. Þar mátti helst skilja að þau lög fælu í sér eins fullkomna lagagerð og um gæti verið að ræða á þessu sviði löggjafarinnar. Ég er einfaldlega ekki sammála því mati hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég tel gjaldþrotaskiptalögin að mörgu leyti gölluð. Ég tel t.d. að í þeim lögum þyrfti að vera meira svigrúm fyrir fólk og fyrirtæki til að komast hjá því að lenda í gjaldþrotameðferð. Við höfum ekki, andstætt því sem um er að ræða á öðrum Norðurlöndum, sérstök ákvæði og sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun sem heimilar skuldugum einstaklingum að leita til dómstóla til að fá úrskurð þeirra um hvað viðkomandi geti í raun greitt af áhvílandi skuldum vegna þess að það er nú þannig í lífinu að blóð verður ekki kreist undan nöglum þar sem allt blóð er þorrið.

Ég sat á sínum tíma í stjórn Neytendasamtakanna og sem málsvari neytenda gerði ég kröfu til þess ítrekað að sérstök ákvæði um greiðsluaðlögun yrðu sett í íslenska löggjöf en hef því miður talað fyrir daufum eyrum hingað til. Því hefur verið lofað nú í vandræðagangi ríkisstjórnarinnar að setja þessi nauðsynlegu ákvæði. Það er eitt af því sem gæti orðið til þess að lagfæra gjaldþrotaskiptalögin sem að mínu viti eru gölluð og þarfnast breytinga. Ég get því ekki tekið undir með hv. þm. Atla Gíslasyni að hér sé um slíka ofurfullkomnun í löggjöf að ræða að ekkert betra geti komið í staðinn.

Varðandi tillögur minni hluta nefndarinnar, þ.e. þær sem hv. þm. Atli Gíslason stendur að, vil ég taka sérstaklega fram að ég styð þá tillögu hv. þingmanns sem kemur fram í 1. tölulið þeirra, breytingu við 50. gr. laganna um að við hana bætist við ný málsgrein um kjararáð sem ákveði laun og starfskjör bankastjóra fjármálafyrirtækja. Ég styð þá tillögu og tek hana eiga fullkomlega rétt á sér og jafnframt þá tillögu sem af sjálfu leiðir í 4. tölulið, þ.e. ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þm. Atli Gíslason gat um áðan að við eigum að sjálfsögðu að miða launakjör ríkisstarfsmanna í ríkisbönkum við launakjör annarra opinberra starfsmanna. Af sjálfu leiðir að ég tek undir þá tillögu og kröfu þingmannsins um að frumvarpið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr., m.a. til að fjalla um þær breytingartillögur sem hv. þingmaður hefur lagt fram.

Ég tel miklu máli skipta varðandi hin opinberu fjármálafyrirtæki sem nú hafa tekið til starfa að við vöndum mjög vel til þess með hvaða hætti þau starfa og hvernig starfskjörum verður háttað í þessum nýju fyrirtækjum. Það skiptir máli að við búum ekki til nýja ofurlaunastefnu í fjármálakerfinu. Af hverju ættu bankastjórar ríkisbanka að hafa hærri laun en forsætisráðherra? Hvaða rök mæla fyrir um það, er nokkur glóra í að þannig skuli það vera? Ég tel svo ekki vera þó að ég sé ekki endilega að mæla með því að laun forsætisráðherra eigi að vera einhver algild viðmiðun, síður en svo.

Að öðru leyti vil ég benda á atriði sem koma fram í greinargerð minni hlutans þar sem segir m.a. að minni hlutinn telji breytingar vanhugsaðar og ófaglegar. Að sjálfsögðu eru þessar breytingar ekki vanhugsaðar, að sjálfsögðu er búið að hugsa þær breytingar, annars væru þær ekki komnar hér á blað. Hugsanlega hefði mátt vinna þær betur en þær eru ekki vanhugsaðar og þær eru að sjálfsögðu ekki ófaglegar heldur. En hér er komið að spurningu um handverk og hvort eðlilegra hefði verið að hafa handverkið með einhverjum öðrum hætti en hér um ræðir. Í sjálfu sér koma ekki fram í tillögum minni hlutans raunverulegar tillögur um breytingar á handverki, hins vegar er talað um að við eigum eingöngu að miða við lög um gjaldþrotaskipti og er vísað til þess. Þar með get ég ekki séð annað en að minni hlutinn sé í raun á móti frumvarpinu og hefði verið eðlilegra að lýsa fullri andstöðu við það og leggja hugsanlega fram breytingar. Ég get ekki séð annað en að verið sé að lýsa andstöðu við frumvarpið í heild.

Ég hef áður minnst á að ég telji að hér geti ekki verið um brot á jafnræðisreglu að ræða þar sem frumvarpinu er ætlað að gilda um öll sambærileg fyrirtæki. Það er alsiða í íslenskri löggjöf og talið að það sé ekki brot á jafnræðisreglu þegar löggjöf tekur jafnt til allra þeirra aðila sem atvinnugrein eða atvinnustarfsemi sinna, þannig að ég tel ekki rétt að þarna geti verið um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ræða. (AtlG: Hvað með sparisjóðina?) Í sjálfu sér geta sparisjóðirnir fallið undir þetta ef þeir lenda í sama farvegi. Það má miklu frekar velta því fyrir sér hvort neyðarlögin fólu í sér brot á jafnræðisreglu miðað við þau ákvæði sem þar gilda um sparisjóði, hv. þm. Atli Gíslason, og við getum þess vegna tekið umræðu um það en það hefur ekkert með þessa löggjöf að gera.

Þá segir í minnihlutaálitinu að það væri þjóðhagslegt slys ef gjaldþroti á bönkum verði beint í farveg greiðslustöðvunar og nauðasamninga. Af hverju væri það þjóðhagslegt slys? Hvað gerir það að verkum að slíkt væri þjóðhagslegt slys? Það er verið að reyna að takmarka tjón eins og við höfum sagt en í hverju gæti hið þjóðhagslega slys verið fólgið? Ég fæ ekki komið auga á að um slíkt gæti verið að ræða.

Síðan er spurt: Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um framtíðarskipan fjármálafyrirtækja? Ég get tekið undir það í minnihlutaálitinu að að sjálfsögðu ber að krefja ríkisstjórnina svara um hvaða framtíðarskipan menn hafa varðandi þá starfsemi. Eins og ég gat um áðan var ég einnig sammála því að kjararáð taki afstöðu til og fjalli um laun og starfskjör bankastjóra. Mér finnst það mjög góðar tillögur og hefði átt að vera í upphaflega frumvarpinu að sú stefna væri mörkuð sérstaklega af Alþingi. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið. Við eigum að víkja af braut ofurlauna. Við eigum að taka það upp sem skiptir kannski svo miklu máli í íslensku samfélagi, að hér gildi ákveðinn jöfnuður en ekki sé gríðarlegur launamunur á milli lægstu og hæstu launa eins og verið hefur í mörgum tilfellum í okkar þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Ég styð það frumvarp sem hér liggur fyrir og þær breytingartillögur sem lagðar eru fram og get fallist, eins og ég sagði, í tveim tilvikum á breytingartillögur minni hlutans sem ég tel eiga fyllilega rétt á sér þó að þær komi eiginlega sem algjörar viðbótartillögur við fyrirliggjandi frumvarp. Ég gat þess áðan að ég hefði haft ákveðinn fyrirvara um ábyrgðina, þ.e. það sem kemur fram í 1. tölulið, staflið d, í breytingartillögum á þskj. 140, þ.e. ábyrgð sem varðar brot af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Ég hefði viljað hafa ábyrgðina meiri en féllst á það til málamiðlunar að þessi ábyrgð væri þó fyrir hendi.