136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn lítum svo á að þetta frumvarp sé í raun framhald á þeim neyðarlögum sem við samþykktum fyrr í haust. Við framsóknarmenn ákváðum að styðja þá lagasetningu þó að ég hafi í ræðu sett marga fyrirvara við það frumvarp. Það er kannski líkt og með þetta frumvarp að þar voru ákveðnir hlutir sem að mínu mati brjóta gegn stjórnarskrárréttindum eigenda og jafnræðisreglu.

Ég lýsi yfir vissum vonbrigðum með að þetta mál skuli hafa verið keyrt í gegn. Það var skiljanlegt með neyðarlögin á sínum tíma að það var ekki eftir neinu að bíða þar en þótt það sé brýnt að fá fyrirtækin, þ.e. gömlu bankana, inn í eitthvert ferli, annaðhvort greiðslustöðvun eða gjaldþrotameðferð, þá tel ég að nokkrir dagar til eða frá hefðu ekki skipt þar höfuðmáli. Hugsanlega hefði málið átt að fara fyrir réttarfarsnefnd og það hefði átt að skoða það ítarlegar af viðskiptanefnd og þeim nefndum sem fjölluðu um málið.

Varðandi þetta sérstaka mál þá munum við framsóknarmenn styðja þetta frumvarp. Við teljum að það ferli sem hófst með neyðarlögunum verði að halda áfram og að störf skilanefndanna megi ekki stöðva í miðju ferli. Það er enginn annar kostur í boði en að skilanefndirnar fái að klára þetta mál og með þeim breytingum sem eru boðaðar í frumvarpinu þó að ég telji að það hefði kannski mátt gera það með öðrum hætti en niðurstaðan hefur verið, bæði í frumvarpinu og einnig í áliti meiri hluta nefndarinnar. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er á nefndarálitinu en eins og í neyðarlögunum ætla ég að lýsa þeim fyrirvörum sem ég geri við þetta frumvarp.

Með neyðarlögunum var í rauninni farið í þá aðgerð að skipta bönkunum í tvennt og stofnaðar skilanefndir. Því miður hefur það valdið vissum vandræðum í ferlinu og ég held að þingið og þingmenn ættu að skoða það mjög alvarlega að fara aftur yfir neyðarlögin. Ég harma að það hafi ekki verið gert vegna þess að ég hef tekið eftir því bæði hjá þingmönnum stjórnarandstöðu og stjórnarþingmönnum að þar eru ýmsir fyrirvarar gerðir við það hvort ekki hafi einhvers staðar verið gerð mistök á leiðinni.

Mig langar að benda á að við það að eignir bankanna voru færðar yfir til nýju fyrirtækjanna meðan skuldirnar voru skildar eftir þá eru önnur fjármálafyrirtæki, hin svokölluðu minni fjármálafyrirtæki og sparisjóðir í landinu sett í mikil vandræði. Vandræðin lýstu sér kannski hvað best þegar Seðlabankinn gerði veðköll í þær tryggingar sem þeir áttu í skuldum, þ.e. í kröfur litlu fjármálafyrirtækjanna á hendur viðskiptabönkunum sem rýrnuðu mjög þegar ákveðið var af hálfu Fjármálaeftirlitsins að þær færu inn í gömlu bankana á meðan eignirnar voru skildar eftir í nýju bönkunum.

Hitt atriðið varðar sérstaklega peningamarkaðssjóðina. Það má segja að með neyðarlögunum hafi rétthæfi krafna verið breytt. Margir litu þannig á að þegar þeir settu peningana sína inn í peningamarkaðssjóði þá væri það í rauninni einhvers konar innlán, peningamarkaðssjóðirnir áttu að gera það að verkum að það var hægt að deila innláninu á marga banka þannig að það væri ekki bara trygging fyrir því í einum banka heldur í þremur og um leið áttu náttúrlega skuldabréf og víxlar bankanna að vera mjög tryggar fjárfestingar. En nú sér maður að það hefur verið farið út í einhvers konar, að mínu áliti, undarlegar aðgerðir þegar bankarnir eru sjálfir að kaupa verðlaus skuldabréf og víxla eigin peningamarkaðssjóða en sýna sömu eignum annarra minni fjármálafyrirtækja lítinn áhuga. Það er auðvitað skiljanlegt vegna þess að markaðsvirði þessara eigna er afskaplega lítið og ég held að engum manni mundi detta í hug að fara að kaupa skuldabréf af gömlu bönkunum eins og staða þeirra er núna.

Svo ég fari örstutt yfir frumvarpið þá gerir meiri hluti nefndarinnar þær breytingartillögur að frestir eða tímamörk greiðslustöðvunar verði lengdir enn frekar og ég lýsi mig samþykkan þeim breytingum. Ég held að það sé einfaldlega verið að liðka til og gera þá framkvæmd sem hér er boðuð raunhæfari en ella.

Í nefndinni var mikið rætt um það hlutverk sem aðstoðarmaður á að hafa þegar hann kemur inn í skilanefndir bankanna. Það er þannig að skilanefndir hafa verið að störfum í margar vikur og eytt gríðarlega miklum tíma í að setja sig inn í þau gríðarlega flóknu mál sem bankarnir eru og hvernig eigi að fara með meðferð eigna þeirra. Það komu óskir frá skilanefndunum um að lögunum yrði breytt á þann hátt að aðstoðarmennirnir yrðu ekki fengnir eða þá að aðstoðarmaðurinn mundi einfaldlega koma inn úr skilanefndinni. Því miður var því hafnað og ég held að um leið hafi tilgangurinn með frumvarpinu aðeins rýrnað vegna þess að þegar aðstoðarmaðurinn kemur þá á hann að hafa það hlutverk að vera í sambandi við kröfuhafa og er í rauninni sá aðili sem tekur stærstu ákvarðanirnar. Hann á að bera ábyrgð á þeim verkefnum og þeim framkvæmdum sem skilanefndirnar munu gera. Það liggur í augum uppi að það verður gríðarlega erfitt fyrir þann aðila og tekur tíma að setja sig inn í öll þessi verkefni.

En meiri hlutinn ákvað að fara þessa leið til þess að liðka aðeins fyrir þessu, að aðstoðarmaðurinn muni ekki bera skaðabótaábyrgð á framkvæmdum fjármálafyrirtækjanna á greiðslustöðvunartíma. Þetta er í anda þess að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins bera heldur ekki ábyrgð eða skilanefndirnar bera ekki ábyrgð á þeim verkefnum sem þeir inna af hendi og kannski eðlilegt að það sé samræmi þar á milli. En á móti kemur að það eru mörg fyrirtæki út um allt land sem eiga í miklum greiðsluerfiðleikum og þar mundu þeir aðstoðarmenn sem þurfa að fara að taka við búi í greiðslustöðvun svo sannarlega vilja líka að það verði gert algjörlega ábyrgðarlaust. Ég er því ekki sannfærður um að það skref sem er verið að stíga í þessari breytingartillögu sé rétt og set fyrirvara við það ákvæði.

Meiri hlutinn hefur einnig lagt til að 4. og 6. töluliður 2. mgr. 12. gr. laganna, um gjaldþrotaskipti, sé í rauninni tekinn úr sambandi. Eins og ég skil þetta er það í rauninni til þess að forða fyrirtækjunum frá því að fara í gjaldþrotameðferð. Ég vil taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni að ég sé í sjálfu sér ekki mikinn mun á þessum tveimur leiðum sem þarf að fara. Ég tel að það sé mjög óráðlegt að við séum að taka svona skilyrðisgreinar og í þessu tilviki ýta þeim til hliðar en önnur stór fyrirtæki verða að lúta sömu skilyrðum. Í mínum huga er þarna verið að mismuna aðilum. Því miður verð ég að segja að tilgangurinn með þessum lögum og neyðarlögunum er einfaldlega það mikill að það hefur verið mat manna að það hafi verið í lagi undir þessum kringumstæðum að brjóta hugsanlegt jafnræði. En ég skal ekki spá um hvernig hin mörgu mál sem væntanlega verða rekin út af þessum lögum munu fara.

Það er líka stórt atriði í þessu máli og í mínum huga mjög mikilvægt, að fyrirtækin fari í gjaldþrot til þess að þeir sem hafa verslað með hlutabréf geti fengið tapið af hlutabréfunum jafnað á móti söluhagnaði og það er ekki heimild til þess öðruvísi en undir gjaldþrotaskiptum og mjög mikilvægt að það hefði gerst nú fyrir áramót. Ég tel að þessi lög muni gera það að verkum að það muni því miður ekki verða þannig. En vonandi munu aðrir hagsmunir vega upp á móti því.

Í niðurlagi meiri hluta viðskiptanefndar er sagt að breytingartillögunni sé ætlað að auðvelda frekar ferlið við gjaldþrot og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja undir stjórn Fjármálaeftirlitsins. Eins og ég vék að áðan þá tel ég að þar séu ýmsir fyrirvarar og ég held að það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir til þess að ná sömu markmiðum en hér eru farnar. Við framsóknarmenn munum þó samþykkja þessi lög. En ég ítreka þá fyrirvara sem ég hef gert. Varðandi þær breytingartillögur sem hafa komið frá fulltrúa Vinstri grænna í viðskiptanefnd, hv. þm. Atla Gíslasyni, þá tel ég þær margar vera mjög góðar og virkilega þess virði að fara yfir þær. En þær bárust því miður ekki nefndinni þegar hún fjallaði um málið og þess vegna munum við framsóknarmenn sitja hjá þegar greidd verða atkvæði um þau ákvæði. En ég hefði svo sannarlega viljað skoða sérstaklega ákvæði 1. liðs breytingartillagnanna þar sem segir að við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:

Kjararáð ákveður laun og starfskjör bankastjóra fjármálafyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins og annarra starfsmanna þegar svo er háttað um laun þeirra og starfskjör að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu, samanber 1. gr. laga nr. 47/2006, um kjararáð.

Þetta ákvæði er vissulega þess virði að það hefði verið skoðað meira og hugsanlega fengið umsagnir vegna þess að þó að þetta hljómi vel þá er þetta kannski ekki alveg jafneinfalt og það hljómar. Því sjáum við framsóknarmenn okkur ekki fært að samþykkja breytinguna eins og hún er en munum sitja hjá við afgreiðslu þessarar breytingartillögu sem og annarra.