136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en taldi óhjákvæmilegt að fjalla í nokkrum orðum um frumvarpið sem hér liggur fyrir.

Eins og þingheimi er kunnugt upphófst ferlið með setningu neyðarlaganna þar sem skilanefndum var falinn rekstur þeirra banka sem teknir voru yfir af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Skilanefndirnar hafa síðan rekið þessa banka og fara með það hlutverk enn þó að það sé reyndar nokkur ofrausn að kalla þessi fyrirtæki banka við núverandi aðstæður enda almennri bankastarfsemi að mestu lokið. Frekar er um að ræða verkefni sem líkjast skilastarfi í þágu kröfuhafa eins og nafnið skilanefnd ber með sér. Nýir bankar hafa verið settir á fót og eignir hafa verið fluttar til þeirra. Eftir stendur hvað gera skuli við þær eignir sem eftir standa í gömlu bönkunum.

Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er greitt fyrir því að unnt verði að nýta fyrirkomulag greiðslustöðvunar fyrir þessa banka. Ástæða þess er sú að að öðrum kosti blasir einfaldlega við hefðbundin gjaldþrotameðferð. Að óbreyttu mundi það leiða til verulegs tjóns fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta, sem eru einkanlega þeir sem kröfur eiga á hendur hinum gömlu bönkum.

Flestar af þeim eignum sem bankarnir eiga eru útlán og eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum. Þessar eignir eiga það sammerkt nú um stundir að vera afskaplega verðlitlar. Hitt er þó alveg ljóst að ef tækifæri gefst til að reka þessar skeljar eða hræ, eins og sumir vilja kalla hina gömlu banka, um einhverja tíð og skapa rekstrarforsendur fyrir þeim rekstri standa vonir til að meira verði úr þessum eignum.

Það er heldur ekki óhugsandi að kröfuhafar geti séð sér í hag í því — margir eru stórir erlendir bankar — að greiða fyrir slíkum rekstri með því að veita rekstrarlán til slíks rekstrar og fá á móti hag af því þegar verð eignanna hækkar á síðari stigum. Eins og allir vita er stærsti hlutinn af vandamálinu og það sem setti íslensku bankana í þrot, skortur á aðgengi að lausafé. Ef erlendir kröfuhafar væru tilbúnir til þess að koma þarna að og greiða fyrir lánsfé til þeirrar starfsemi sem enn er í gömlu bönkunum kann það að reynast allra hagur.

Hér hefur nokkuð talað um að allt sé þetta gert í þágu erlendra kröfuhafa og víst er að það skiptir miklu enda er markmið þessa ferlis auðvitað að tryggja hag kröfuhafanna allra. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að eins vel takist til við varðveislu verðmæta og mögulegt er. Orðspor Íslands er í húfi sem og virðing Íslands meðal erlendra viðskiptamanna. Það er mjög mikilvægt að við gerum sem mestan mat úr eignunum við þessar erfiðu aðstæður og á okkur hvílir rík skylda í því efni.

Við eigum mikið undir því að fyrir þessar eignir fáist eins mikið fé og mögulegt er enda kemur ávinningurinn af slíku til frádráttar því sem ella kann að falla á íslenska skattborgara í ábyrgðum vegna starfsemi íslensku bankanna á erlendri grundu.

Það er einnig ljóst að ef ekki kemur til annað tveggja, umgjörð nauðasamninga eða gjaldþrotaskipta, standa skilanefndirnar og gömlu bankarnir berskjaldaðir fyrir handahófskenndum aðgerðum einstakra kröfuhafa, annaðhvort kyrrsetningum á fjármálafyrirtækjum eða á eignarhlutum bankanna í samsettum lánum. Því verður auðvitað að verjast. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenska skattborgara og auðvitað fyrir alla kröfuhafa að jafnræðis kröfuhafa sé gætt sem kostur er og það verður ekki mögulegt nema komið sé í veg fyrir að einstaka kröfuhafar geti leitað kyrrsetningar á greiðslum sem íslensku bönkunum ber að fá úr einstökum lánum sem þeir hafa veitt eða átt hlutdeild í að veita á erlendri grundu á undanförnum árum.

Gjaldþrot er auðvitað valkostur en það er eðli gjaldþrotaskipta að í því felst að verið er að loka rekstri þess félags sem komið er í gjaldþrot og fá fyrir það fé kröfuhöfum til handa. Það er jafnframt ljóst að þó hér hafi verið nefnt eitt fordæmi fyrir því að rekið hafi verið um eitthvert skeið tryggingafélag á Íslandi eftir gjaldþrotaskipti er það undantekning en ekki regla. Hin almenna regla í íslenskum gjaldþrotarétti er að rekstri þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota er sjálfhætt eftir að gjaldþrotaskipti hefjast.

Það er af þessum ástæðum og jafnframt vegna þess að skilanefndirnar telja æskilegt að hafa sveigjanleika um mögulegt framtíðarfyrirkomulag eignanna að farin er sú leið hér að greiða fyrir því að unnt sé að nýta það svigrúm sem felst í heimildum til nauðasamninga. Það er nauðsynlegt til að verja heildarhagsmuni fyrir aðgerðum einstakra kröfuhafa. Það er nauðsynlegt til að verja hagsmuni íslenskra skattborgara og það er ekki síst nauðsynlegt til þess að verja heildarhagsmuni allra kröfuhafa í búið, jafnt hinna smærri sem hinna stærri.

Hv. þm. Atli Gíslason málaði nokkuð dökka mynd af þeirri aðgerð sem hér er lögð til og telur að hún sé fyrst og fremst í þágu stærri kröfuhafa. Ég tel þvert á móti óbreytt ástand vera það hættulegasta af öllu fyrir smærri kröfuhafa þegar einstakir stórir kröfuhafar geta í krafti stærðar sinnar og aðstöðu handlagt eignir íslensku bankanna á erlendri grundu án tillits til hagsmuna hinna smærri.

Ég tel ekki nokkra ástæðu til að kvíða hag hinna smærri kröfuhafa í hefðbundnu greiðslustöðvunarferli að hætti íslenskra laga. Þvert á móti er það ferli sem er vel þekkt og reynt og hefur gefist vel. Mér þættu það allsérkennileg skilaboð ef skilaboð löggjafans væru þau að greiðslustöðvunarferli samkvæmt íslenskum lögum væri óáreiðanlegt og í því fælist mismunun kröfuhafa minni kröfuhöfum í óhag. Það þættu mér sérkennileg skilaboð frá Alþingi á þessum tíma til þeirra fyrirtækja sem nýta sér nú hvert á fætur öðru möguleika til nauðasamninga í gegnum greiðslustöðvunarferli.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Hér hefur nokkuð verið rætt um aðkomu réttarfarsnefndar og ágæta framsögu fulltrúa nefndarinnar, Benedikts Bogasonar, fyrir viðskiptanefnd. Sá merki lögfræðingur hafði margt athyglisvert um málið að segja. Ég tel fulla ástæðu til þess að við nýtum það tækifæri sem skapast nú með því að vísa málinu til nefndar milli 2. og 3. umr. til þess að óska eftir formlegu áliti réttarfarsnefndar. En málið er vel úr garði gert og er sannarlega til þess fallið að verja meiri hagsmuni jafnt skattborgara sem kröfuhafa.