136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst undarlegt að hlusta á hv. þingmann. Ég skil ekki hvaða nauður rekur þingmenn Vinstri grænna til að reyna að láta að engu verða verðmæti sem liggja í þessum bönkum. Hv. þingmaður sagði að loka ætti bönkunum tafarlaust, það væri grundvallaratriði og skipti miklu máli að þessu ferli yrði lokið strax.

Fyrir liggur að það er fjármálakreppa í heiminum. Fyrir liggur að vaxandi efnahagskreppa er í heiminum. Fyrir liggur að verðmæti þessara eigna, sem margar voru keyptar dýrum dómi fyrir nokkrum árum, eru nú í sögulegu lágmarki. Þá hlýtur maður að spyrja: Þarf ekki ansi sterk rök fyrir því að ákveða að ljúka gjaldþrotaferli á þessum tímapunkti þegar allir vita að það mun þýða hámarkstjón fyrir kröfuhafa? Það mun þýða hámarkstjón fyrir íslenskan almenning sem mun þá þurfa að bera að fullu þær byrðar sem menn eru að vonast til að fá eignir upp í úr þessum búum. Þetta er algjörlega fráleitur málflutningur og undarleg framganga gagnvart almenningi og skattborgurum í landinu.

Almenningur í landinu, sem þarf nú að horfast í augu við að bera að einhverju leyti kostnað vegna atvinnustarfsemi sem einstaklingar stofnuðu til í fyrirtækjum, á betra skilið. Almenningur á ekki að þurfa að bera allar þessar byrðar við erfiðasta ástand sem hægt er að hugsa sér, ef hægt er að finna á því fræðilegan flöt að reka þessar eignir áfram um einhvern tíma til þess að reyna að fá fyrir þær meira verð. Tilgangurinn er sá að íslenskir skattborgarar þurfi ekki að hafa af þessum málum meira tjón en nauðsynlegt er.