136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur víst tíðkast almennt séð að selja eignir um leið og hafist er handa um gjaldþrotaskipti. Almenna reglan á Íslandi hefur verið sú að rekstur búa hefur verið í lágmarki eftir að gjaldþrotaskipti eru hafin og reynt hefur verið að koma eignum í verð hratt og örugglega. Hér eru sannarlega aðrir og ríkari hagsmunir af langtímarekstri og það kann jafnvel að vera möguleiki að forða mjög miklu tjóni.

Mér finnst líka mjög sérkennileg sú aðför að faglegum heiðri þess fólks sem situr í skilanefndum bankanna sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir setur hér fram. Úr ræðustóli Alþingis falla sleggjudómar yfir þessu fólki og því starfi sem það er að vinna. Ég held að mjög vel hafi verið unnið af skilanefndunum og af fyllstu fagmennsku á undanförnum vikum og algjörlega fráleitt að vera með sleggjudóma sem ekki er nokkur fótur fyrir.

Þetta er líka staðfesting á því sem ég hef oft sagt úr þessum ræðustól að lengi má manninn reyna þegar á hólminn er komið og á það í þessu tilviki við um þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Að hér skuli vera lýst sérstakri tiltrú á hundrað ára gömul gjaldþrotalög. Það hljóti að vera eðlilegt að nota þau af því þau eru hundrað ára gömul. Sannast þá hið fornkveðna að hér er um að ræða afturhaldssamasta róttæklingaflokk sem um getur á byggðu bóli — óbreytt ástand er alltaf betra en breytingar og að framfarir eru nú eitthvað það sem þessi flokkur getur aldrei hugsað sér. (Gripið fram í.) Það virðist algjörlega tryggt að óbreytt ástand sé alltaf betra en eitthvað nýtt og breytingar.

Fyrir liggur að hætta er á að verðmæti fari forgörðum. Fyrir liggur að mun ríkari hagsmunir eru af því að reka þessar eignir áfram en að láta fara fram gjaldþrot en þá er samt sagt að hundrað ára aðferðin sé betri en að reyna eitthvað nýtt.