136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er virðingarvert hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að krefjast þess að hér verði vandaður málflutningur og að vanda þurfi til við uppbyggingu nýrra banka, fá nýja sýn og nýjar áherslur. Undir þetta get ég tekið heils hugar.

Það sem vakti forvitni mína var að í ræðu hv. þingmanns komu ýmsar upplýsingar sem ég hef ekki skjöl fyrir og hef ekki heyrt fyrr. Hér er fullyrt að verið sé að greiða úr sjóðum skattborgara — frá ríkissjóði væntanlega, því að það er umboðsaðili skattborgara — u.þ.b. 620 þús. kr. á mann og það hafi verið gert í einhverjum leyniherbergjum og ákveðið án vitneskju annarra. Þetta eru upplýsingar sem ég hef ekki fengið og væri gaman að heyra hvaðan viðkomandi hv. þingmaður hefur þær.

Einnig er fullyrt að Fjármálaeftirlitið hafi skjalfest, svo að ég hafi orðrétt eftir hv. þingmanni, „að ljóst var að Icesave var að sliga þjóðfélagið þegar hollenska útibúið var stofnað“. Þarna eru upplýsingar sem ég hef ekki heyrt fyrr en hér og vil þá biðja hv. þingmann að gefa mér upp með hvaða hætti hann hafi fengið staðfestingu á þessu þar sem svo er látið sem þetta sé öllum ljóst.

Mér finnst það ábyrgðarhluti þegar hv. þingmenn koma hér í ræðustól og feykja upp moldviðri og auka þannig á óvissu og tortryggni í samfélaginu, sem er af ýmsum ástæðum mikil fyrir. Ég held að mjög mikilvægt sé að hv. þingmaður geri grein fyrir því hvað átt er við með „bakherbergjum“ og hverjir hafi verið þar og þá inn á hvaða einstaklinga á að hleypa lofti svo að þeir lifi betur. (Forseti hringir.) Þetta eru athugasemdirnar sem komu hér í ræðu. Mig langar að fá betri skýringar, takk.