136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef það eru ekki skattgreiðendur sem eiga að greiða 200 milljarða kr. reikninginn sem fór í að borga út úr sjóðunum, hver er það þá? Hver á að borga þetta?

Þannig vill til að bankarnir sem keyptu þessi verðlitlu og verðlausu bréf af gömlu bönkunum eru orðnir ríkisbankar og það liggur fyrir að það er verkefni ríkissjóðs að leggja þeim til hlutafé og rekstrarfé, m.a. til þeirra verka sem þeir nú þegar hafa framkvæmt, sem er að kaupa þessi verðlitlu og verðlausu bréf, þar á meðal bréf í stórum fyrirtækjum sem eru í greiðslustöðvun. Ég vil nefna hér fyrirtækið Stoðir, sem áður var FL Group. Hvað skyldu bréf þess fyrirtækis hafa verið keypt á mikið og hver á að borga það? Auðvitað kemur reikningurinn til skattgreiðenda, hv. þingmaður. Menn mega ekki vera svona viðkvæmir fyrir gagnrýni.

Það kann vel að vera að hv. stjórnarþingmenn viti ekkert meira um það sem er að gerast en við stjórnarandstöðuþingmenn. Þá skora ég líka á ykkur að viðurkenna það (Gripið fram í.) í stað þess að standa hér og skamma þá sem kalla eftir því að upplýsingar komi fram og liggi uppi á borðum. (Gripið fram í.) Ég kom með fullyrðingar um það að 200 milljarða kr. reikningurinn sem það kostaði að borga fyrir þessa sjóði mun koma til skattgreiðenda og það fullyrði ég enn og aftur. Það er enginn annar sem kemur til með að borga það, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)