136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara eitt atriði sem mig langar til að koma inn á í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Hann beindi þeim tilmælum til viðskiptanefndar að hún fengi á sinn fund erlenda kröfuhafa. Ég tel að það sé afar vel til fundið af hálfu hv. þingmanns að benda á það en vil þó taka fram að við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað krafist funda í viðskiptanefnd og líka óskað eftir upplýsingum, t.d. varðandi viljayfirlýsinguna sem hefur verið gerð við Holland. Það er nú ekki lítið mál hvað kemur til með að standa í henni. Er búið að semja við Hollendinga um greiðslu á einhverjum hluta þeirra krafna sem þeir eiga á okkur?

Við höfum líka farið fram á það t.d. að nýju bankastjórarnir komi á fund viðskiptanefndar, viðskiptaráðherra, bara svo að hann geti upplýst um það ferli sem á sér stað, hvað er í gangi og kannski til þess að svara óteljandi spurningum sem brenna á nefndarmönnum og hafa því miður komið fá svör við. Ég vil þó hrósa bæði formanni og varaformanni viðskiptanefndar fyrir að halda mjög ítarlega fundi nánast upp á hvern einasta dag. Ég vil þá kannski spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort ekki væri vert að skoða það að viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd komi saman og ræði þessi mjög svo brýnu mál. En ég tek undir að það er mjög góð ábending að fá erlenda kröfuhafa á fund nefndarinnar.