136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[16:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Viðsnúningur í efnahagsmálum þjóðarinnar stefnir fjölmörgum heimilum í landinu í hættu. Óhjákvæmilegt er að grípa til aðgerða tafarlaust til að mæta vanda fólks sem stendur frammi fyrir ört vaxandi greiðslubyrði lána, verðlækkun eigna sinna, lækkun kaupmáttar og í sumum tilvikum atvinnumissi. Nú þegar hefur komið í ljós að töluverður hópur fólks getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum og að óbreyttu mun þeim fjölga á næstu vikum og mánuðum. Mikilvægt er að bregðast hratt og örugglega við þessum breyttu aðstæðum og þegar um miðjan nóvember kynnti ég fjölmargar aðgerðir sem unnar voru af ráðuneyti mínu í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að mæta vanda lántakenda sjóðsins. Fæstar aðgerðanna kröfðust lagabreytingar og eru þegar komnar til framkvæmda á grundvelli reglugerðarbreytinga eða breytinga á verklagi Íbúðalánasjóðs.

Aðgerðirnar í frumvarpinu, sem ég mæli fyrir, eru þær einu sem krefjast lagabreytingar af þeim aðgerðum sem kynntar voru í síðasta mánuði. Helstu aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til eru: Íbúðalánasjóður getur nú boðið viðskiptavinum sínum að greiða ekki af höfuðstóli láns heldur einungis vexti og verðbætur í tiltekinn tíma. Þykir það líklegt til að leysa úr greiðsluvanda lántakenda. Lántakandi getur nú komist hjá nauðungarsölu með greiðslu þriðjungs af vanskilum sínum í stað helmings áður. Lántakandi, sem hefur keypt nýtt húsnæði en ekki tekist að selja eldra húsnæði sitt vegna sölutregðu á fasteignamarkaði, getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið frest á greiðslu afborgana lána. Íbúðalánasjóður hefur breytt verklagi við innheimtu vangoldinna skulda og bíður nú með sendingu greiðsluáskorunar í fjóran og hálfan mánuð frá gjalddaga í stað tveggja og hálfs áður. Þá hefur tími sem fólk hefur til að flytja úr íbúð sem það missir á nauðungarsölu verið lengdur úr einum mánuði í þrjá. Framantaldar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum sem felast m.a. í skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana í allt að þrjú ár.

Fyrstu tíu mánuði þessa árs voru umsóknir vegna greiðsluerfiðleika til Íbúðalánasjóðs 718, sem er 127% aukning miðað við sama tíma fyrir ári. Um helmingur umsóknanna barst sjóðnum í september og október og á fyrstu ellefu dögum þessa mánaðar hafa bæst við tæplega 140 umsóknir. Vanskil eru verulegt vandamál og í upplýsingum frá Creditinfo á Íslandi frá 29. október kemur fram að tæplega 14.000 heimili eru á vanskilaskrá eða tæplega 8% allra fjölskyldna í landinu.

Eitt úrræðanna sem gripið hefur verið til er að efla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Um miðjan október var stöðugildum þar fjölgað um fjögur. Nú er til skoðunar hvort setja eigi stofnuninni stað í lögum og víkka starfsemi hennar fyrir fólk, líka á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir miðar að tvennu. Í fyrsta lagi felur það í sér heimild Íbúðalánasjóðs til að lengja lánstíma vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára nú. Annars vegar verði heimilaður lánstími skuldbreytingarlána vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika lengdur úr 15 árum í 30 ár. Hins vegar verði Íbúðalánasjóði heimilt að lengja upphaflegan lánstíma lánasjóðsins vegna greiðsluerfiðleika um allt að 30 ár í stað 15 ára eins og nú er. Með aðgerðunum er reynt að hjálpa fólki að standa undir skuldbindingum sínum. Þessi breyting ásamt öðrum greiðsluerfiðleikaúrræðum sem fyrir hendi eru geta stuðlað að því að fólki takist að standa undir greiðslubyrði sinni. Breytingin nýtist helst þeim sem eiga stutt eftir af lánstímanum eða þeim sem hafa í góðærinu valið þá leið að taka lán til tiltölulega fárra ára en geta nú lengt lánstímann í ljósi breyttra aðstæðna.

Ég vil nefna dæmi af áhrifunum. Miðað við lán þar sem eftirstöðvar eru 20 millj. kr. og lánstíminn 27 ár er greiðslubyrðin um 103 þús. kr. á mánuði nú. Ef lánstíminn er lengdur um 15 ár verður greiðslubyrðin 84 þús. kr. á mánuði eða 19 þús. kr. lægri. Miðað við lengingu lánstíma í 55 ár yrði greiðslubyrðin um 77 þús. kr. á mánuði eða 25 þús. kr. lægri en ella.

Í öðru lagi tekur frumvarpið til aðgerða vegna fólks sem ekki getur og mun ekki geta staðið undir afborgunum af húsnæðislánum sínum þrátt fyrir úrræði eins og skuldbreytingu, lengingu lána, frystingu afborgana eða greiðslufrest. Fólks sem á í svo miklum vanda að það getur ekki átt íbúðir sínar áfram. Því er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín á nauðungarsölu.

Samkvæmt úttekt sem Landsbankinn gerði í sumar voru nærri 2.400 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu óseldar. Er þá átt við íbúðir sem voru ýmist alveg tilbúnar eða langt komnar í byggingu. Þá eru ótalin hundruð íbúða á landsbyggðinni og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni í þessum tölum eru ekki heldur upplýsingar um fjölda húsgrunna eða lóða sem eru tilbúnar fyrir framkvæmdir. Áætlað er að lóðir og húsgrunnar á höfuðborgarsvæðinu séu um 3.500.

Upplýsingar um leiguverð á almennum markaði eru ekki aðgengilegar en samkvæmt upplýsingum frá leigumiðlunum gætir lækkana á húsaleigu. Þá munu vera dæmi um að fólk leigi eignir sínar frekar út undir kostnaðarverði en að hafa engar tekjur á móti útgjöldum vegna húsnæðisins.

Virðulegi forseti. Heimild Íbúðalánasjóðs til að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlun íbúðarhúsnæðis er lögð til með það að meginmarkmiði að gera leigjendum íbúða sem sjóðurinn hefur eignast á nauðungaruppboði vegna greiðsluerfiðleika leigufélaga og eigendum íbúða sem hafa misst þær vegna greiðsluerfiðleika kleift að búa áfram í íbúðarhúsnæðinu í tiltekinn tíma gegn leigu. Fólki sé þannig forðað frá því að þurfa að hrekjast úr húsnæði sínu með litlum fyrirvara og án þess að eiga í önnur hús að venda. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þessa heimild sjóðsins í reglugerð svo sem skilyrði fyrir beitingu úrræðisins, forsendur fyrir ákvörðun leigu og mögulega tímalengd leigusamninga. Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi og leigi íbúðarhúsnæði til lengri tíma heldur er fyrst og fremst um skammtímaúrræði að ræða sem nota ber í þágu íbúa húsnæðisins sem um ræðir.

Leiguheimildin til Íbúðalánasjóðs gerir honum jafnframt kleift að gæta hagsmuna sinna og hafa arð af húsnæði sem hann eignast þar til hægt er að selja það á markaði. Eins og áður sagði getur sjóðurinn falið öðrum að annast útleigu samkvæmt samningi og bind ég miklar vonir við að góð samvinna náist við sveitarfélög og fleiri aðila um að finna lausnir fyrir þá sem standa í þeim sporum að missa húsnæði sitt.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarps um aðgerðir í húsnæðismálum vegna greiðsluvanda lántakenda Íbúðalánasjóðs. Aðgerðir sem þar eru boðaðar eru nauðsynlegar en fleira þarf að koma til. Nú er í smíðum í ráðuneyti mínu frumvarp sem ég vonast til að geta lagt fyrir Alþingi á allra næstu dögum og felur í sér aðgerðir til að jafna greiðslubyrði fólks og draga úr misræmi milli launa og lána. Þá hefur fjármálaráðuneytið kynnt frumvarp sem miðar að því að fella tímabundið niður stimpilgjöld vegna skilmálabreytinga og skuldbreytinga lána sem ætti að auðvelda fólki að endurskipuleggja fjármál sín. Einnig er væntanlegt frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir um greiðsluaðlögun, sem er sambærilegt lögum sem lengi hafa verið í gildi hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Þetta úrræði hefur gefist vel þegar ekkert hefur blasað við heimilum nema gjaldþrot.

Virðulegi forseti. Í lok umræðunnar óska ég eftir að frumvarpinu verði vísað til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd og vænti þess að það geti fengið skjóta meðferð.