136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[16:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til umræðu frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, þar sem fyrst og fremst er verið að breyta heimildum til lengingar á skuldbreytingarlánum í Íbúðalánasjóði, úr 15 árum í 30 ár, til þess að létta greiðslubyrði hjá þeim sem eru að lenda í vandræðum eftir hrun bankanna. Opnað er fyrir þann möguleika að Íbúðalánasjóður geti leigt út húsnæði sem hann eignast ef fólk lendir í þroti og tryggt að eigendur íbúðanna, sem áður voru, eigi rétt á því að búa þar áfram. Þessum tillögum ber að fagna og þær bætast við tillögur sem áður hafa komið fram, og fleiri eru raunar í farvatninu, í sambandi við það með hvaða hætti við getum tryggt hag heimila og einstaklinga á þessum miklu umbrotatímum í þeim þrengingum sem fyrirsjáanlegar eru vegna vaxandi atvinnuleysis og minnkandi greiðslugetu.

Varðandi það að geta leigt út húsnæði Íbúðalánasjóðs væntir maður þess að lífeyrissjóðir reyni með einhverjum hætti að taka upp sömu reglur og tryggi þá að menn, enn fleiri en Íbúðalánasjóður getur tryggt, geti verið öruggir með að geta búið áfram í húsnæði sínu.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra gerði grein fyrir ýmsum öðrum breytingum. Þetta er í raunveruleikanum aðeins hluti af breytingum sem þegar hafa komið til framkvæmda með reglugerðarbreytingum í Íbúðalánasjóði, reglur sem ríkisstjórnin hefur óskað eftir að nýju ríkisbankarnir taki upp í öllum afgreiðslum sínum varðandi greiðsluerfiðleikaúrræði, þær reglur sem Íbúðalánasjóður hefur haft auk þeirra viðbótarreglna sem þar hafa komið upp, að þær verði einnig látnar gilda um ríkisbankana, þau úrræði sem þeir nota gagnvart skuldunautum sínum. Á sama tíma hef ég væntingar um að þeirri hugmynd verði fylgt eftir að öll íbúðalánin færist til Íbúðalánasjóðs einfaldlega vegna þess að ég met það þannig að taka þurfi til í lánasafninu og það verði erfitt að gera það í einstökum bönkum og erfitt að samræma þau kjör sem þar eru í boði varðandi ýmis úrræði.

Ég hef verið svo heppinn að fá tækifæri til að vinna með ráðuneytinu og hæstv. félagsmálaráðherra að ýmsum hugmyndum — að safna saman, get ég frekar orðað það — þeim hugmyndum og þeim vangaveltum sem komið hafa fram í blaðagreinum, í tölvupósti sem við höfum fengið, umræðum hér í þinginu, frá stjórnarandstöðunni, í umræðum í félags- og tryggingamálanefnd og víðar. Við höfum verið að skoða hvaða möguleikar eru til enn frekari úrræða varðandi það að bæta hag heimilanna. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra gerði einmitt grein fyrir þessum hugmyndum í félags- og tryggingamálanefnd síðasta mánudag en þar eiga allir flokkar þingsins fulltrúa. Það er brýnt að allir þessir aðilar leggist á eitt um að reyna að ná fram sem allra hagstæðustum tillögum til að tryggja að við lendum ekki í vandræðum með heilu hópana af fjölskyldum, nógir eru erfiðleikarnir samt. Það er eitt af því brýnasta að við getum tryggt fólki afkomu og húsnæði í þessum þrengingum.

Við erum nú að fjalla um frumvarp um atvinnuleysistryggingar og heimild til þess að vera með fólk í hlutastarfi á móti tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Sú tillaga liggur fyrir þinginu og hefur verið til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og kemur væntanlega úr nefndinni á morgun og vonandi til afgreiðslu á fimmtudaginn. Það er sem sagt annað mál sem er komið svona langt. Áður hefur verið upplýst að verið er að vinna tillögur varðandi greiðsluaðlögun, þ.e. að breyta gjaldþrotalögunum þannig að hægt sé að vinna að greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem reynt verði að stilla saman tekjur og mögulega greiðslugetu fólks og með einhverjum hætti reynt að frysta greiðslur á lánum á meðan fólk er að fara í gegnum þennan vanda.

Í þessu samhengi er rétt að ítreka að ég held að við þessi tímamót í fjármálalífi okkar eigum við að öðlast nýtt hugarfar gagnvart bæði þeim sem taka lán og þeim sem veita lán. Það er mjög forvitnilegt að skoða Evrópusamþykktir og tilskipanir sem hafa verið gefnar út á sl. ári. Evrópuráðið fjallaði um vandkvæðin sem fylgdu þá aukinni skuldsetningu heimila og einstaklinga, varaði við þessu flæði peninga þar sem bankarnir nánast ýttu lánum að lántakendum. Í þeim hugmyndum sem þar eru settar fram og þeirri umræðu sem fram kemur í þessari tilskipun er ítrekað að ábyrgðin á slíkum lánum hlýtur alltaf að vera bæði lánveitandans og lántakandans. Hingað til hefur það verið þannig í íslensku kerfi að það er fyrst og fremst lánveitandinn sem er varinn í öllum aðgerðum þegar fólk kemst í vandræði. Ég held að það sé mikilvægt að á þessu verði breyting þannig að menn verði vandaðri við lánveitingar í nýju bönkunum og setji sér betri reglur varðandi útlán.

Einnig hefur komið fram að verið er að ræða um afnám stimpilgjalda og alls kyns kostnaðar. Þeir sem vilja breyta lánum hafa þurft að borga stimpilgjöld og ýmsan annan kostnað. Það er verið að reyna að koma þessu inn í þingið og tillögum um það með hvaða hætti er hægt að gera þetta. Það hefur einnig verið í umræðunni hvort breyta hefði átt með einhverjum hætti uppgreiðslugjaldinu þannig að fólk sem á kost á því að breyta lánum eða færa sig á milli með einhverjum hætti geti gert það án þess að bera mikinn kostnað.

Það hefur einnig komið fram í umræðunni, og ástæða til þess að halda því til haga, að ítarlega hefur verið rætt um innheimtuaðgerðir og send hafa verið tilmæli til allra ráðuneyta og stofnana ríkisins um að milda eins og kostur er innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum. Opinberum innheimtuaðilum átti líka að veita enn frekari heimildir til sveigjanleika í samningum um gjaldfallnar kröfur er taki mið af mismunandi aðstæðum einstaklinga. Það er ljóst að það eru mjög þröngar skorður sem innheimtuaðilar hafa varðandi úrræði en það eru sem sagt tilmæli um að þetta verði rýmkað. Þá þarf að huga að því að við höfum heimildir til þess að skuldajafna á móti tekjum eins og t.d. barnabótum og skuldajafna það á móti opinberum gjöldum. Það hefur verið tillaga okkar að þetta verði afnumið og einnig að vaxtabótum verði ekki heimilt að skuldajafna á móti lánum úr Íbúðalánasjóði. Þetta eru allt saman fyrirheit og hlutir sem eru í vinnslu og ástæða til þess að fylgjast með og reyna að ýta á eftir að komi til afgreiðslu á viðeigandi stöðum.

Einnig hefur verið rætt um það hvort með einhverjum hætti sé hægt að hámarka innheimtukostnað og jafnvel verið rætt um hvort hægt sé að setja einhver lög um dráttarvexti vegna þess að þegar stýrivextir eru settir jafnhátt og nú er þarf það ekki að vera lögmál að ofan á það leggist jafnháar upphæðir og verið hefur þannig að menn séu að borga 26–28% í dráttarvexti.

Allt þetta skiptir máli til þess að létta á heimilum og einstaklingum þannig að þeir geti tryggt afkomu sína.

Einnig hefur verið rætt um það, og starfandi hefur verið hópur sem ég vænti að skili af sér á næstu dögum, hvernig meðhöndla eigi verðbólgu og verðbætur á lánum. Varað er við því í grein í Morgunblaðinu í dag, eftir Jón Steinsson og Gauta B. Eggertsson, að hrófla við vísitölunni. Ég held engu að síður að mikilvægt sé að tryggja að afborganir af lánum verði ekki langt umfram það sem launavísitalan mælir nú þegar skerðing verður á launum og jafnvel lækkanir — að eitthvert samræmi verði á milli í þeirri úrlausn sem þar verður fundin. Ég vænti þess að þingheimur fái að heyra niðurstöður þessarar nefndar á allra næstu dögum.

Hagsmunir námsmanna hafa verið töluvert til umræðu og brugðist var við með aðgerðum til að tryggja hagsmuni námsmanna erlendis. Það voru tillögur sem unnar voru af Lánasjóði íslenskra námsmanna eftir fund í menntamálanefnd en þangað barst bréf frá Samtökum íslenskra námsmanna erlendis. Síðan hafa komið tölvupóstar um að þessar aðgerðir dugi ekki og verður að skoða það. Þó verður að fagna því hve skjótt var brugðist við en það veldur okkur vandræðum hve illa gengur að koma gjaldeyri á milli landa og hversu lágt gengið er í augnablikinu, hversu mikið þarf að borga fyrir erlenda gjaldmiðla.

Eitt af því sem hefur verið nefnt í umræðunni og er mikilvægt að ræða í þinginu, og koma því þá til afgreiðslu þar, er með hvaða hætti er hægt að heimila að viðbótarlífeyrissparnaðurinn sé nýttur til að greiða niður lán. Þetta er ekki alveg auðvelt vegna þess að þar er um að ræða sérvarinn rétt sparifjáreigenda og þetta er ekki aðfararhæft í gjaldþrotamálum þannig að mikilvægt er að gæta þessara sjóða fyrir einstaklingana. Með sama hætti hafa margir haft samband og óskað eftir því að þeir fái að nýta sér að opna þessa reikninga og greiða niður lán sín til þess að forða sér frá þrotum og ég tel nauðsynlegt að koma til móts við það. Sú ósk hefur verið studd af samþykktum ASÍ-þingsins nú nýlega þar sem bent er á að rétt sé að skoða þessa leið.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur rætt um Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, sem hefur fengið gríðarlega aukið hlutverk og þar er búið að bæta við mannskap. Ég tel mjög mikilvægt að fylgja því enn frekar eftir þannig að opnaðar verði skrifstofur úti á landi á stærri stöðum þar sem fólk getur fengið aðstoð við að setja heimilisbókhaldið upp að nýju og stilla saman útgjöld og tekjur. Eins þarf að ná samstarfi við þá aðila sem hafa verið afar iðnir og duglegir við að vinna í þessu erfiða ástandi, sem eru verkalýðsskrifstofurnar, skrifstofur sveitarfélaganna og ýmis félög sem hafa gegnt þar mjög mikilvægu hlutverki.

Hægt væri að tína til ýmis fleiri atriði sem hafa verið til skoðunar og munu verða til skoðunar áfram. Sjálfur hef ég væntingar um það að mjög fljótlega komi fram heildstætt yfirlit yfir það sem hefur verið gert og það sem ákveðið hefur verið að gera til að létta undir með heimilunum. Ég held að það sé mikilvægt til þess að létta af áhyggjum heimila og einstaklinga í þeirri stöðu sem nú er. Óvissan er næg, hafandi ekki fengið svör um afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirgreiðslu þaðan og traustsyfirlýsingu við íslenskt efnahagslíf. Við verðum enn að bíða þar, að því er virðist, en á sama tíma væri afar mikilvægt að við reyndum að skapa heildarmynd um þær hugmyndir sem eru í farvatninu og ákveðið hefur verið að grípa til og það sem þegar hefur verið gert. Mörgum er nefnilega ekki fyllilega ljóst til hvaða aðgerða hefur verið gripið nú þegar.

Það er að vísu líka vegna þess að í byrjun, þegar menn voru að biðja bankana um að fylgja eftir reglum Íbúðalánasjóðs varðandi greiðsluerfiðleikaúrræði, hlýddu bankarnir ekki strax og það skapaði óöryggi þegar fólk fór að mæta í bankana og fékk misvísandi svör. Ég ætla að vona að búið sé að laga það að mestu eða alveg og að framhaldið verði auðveldara.

Það er líka ljóst í þessari umræðu allri að mjög mikilvægt er að sveitarfélögin fái tækifæri og aðstoð frá Alþingi til að geta gripið til aðgerða. Við höfum fyrir því heimildir nú þegar að í einstökum skólum hefur fólk dregið börn út úr skólamáltíðum, jafnvel dregið úr tómstundaiðkun þeirra eða þátttöku í heilsdagsvistun, lengri viðveru, eða tómstundaskólum. Það er mjög alvarlegt ef það sverfur svo að að fólk geti ekki sinnt þessum úrræðum áfram sem hingað til. Þarna verða sveitarfélögin að grípa inn í, standa vaktina mjög vel. Það getur vel verið að við þurfum að grípa til þess að hafa ókeypis skólamáltíðir og lækka gjaldtökur eða hafa ókeypis ýmis þau úrræði sem sveitarfélögin hafa verið að gera. Það er þó ljóst að sveitarfélögin eru ekki það öflug að þau muni gera þetta án aðstoðar frá ríkisvaldinu.

Þarna er kannski verið að tala um væntingar fram í tímann en ég tel samt mikilvægt að við öll, þingmenn og almenningur og þeir sem hafa verið að bera fram tillögur, drögum fram tillögur okkar og úr því verði svo skilvíslega unnið og skipulega. Að við reynum í sameiningu að sigla samfélagi okkar í gegnum þennan brimskafl og náum þeirri lendingu að hér geti fjölskyldur og einstaklingar staðið með fullri reisn innan skamms tíma.