136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að meginskýringin á gengi gjaldmiðilsins sé sú að ríkisstjórnin er að tala gjaldmiðilinn niður eða réttara sagt Samfylkingin. Samfylkingin sem talaði fyrir aðild að Evrópusambandinu og fór með það í atkvæðagreiðslu árið 2001 og fékk flokkssamþykkt fyrir því að hafa þetta sem meginstefnu, talaði fyrir því löngu, löngu áður en kom til nokkurra erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar og hefur talað fyrir evru í mörg ár einmitt til að tryggja að hér sé stöðugra umhverfi, öruggari gjaldmiðill sem geti tryggt afkomu fólks.

Hv. þingmaður bendir réttilega á að tillögur um stýrivaxtahækkun eru einmitt til að halda fjármagninu heima og að fjármagnið í sambandi við jöklabréfin streymi ekki jafnhratt út. En hv. þingmaður gleymir að nefna að lífeyrissjóðir landsins eiga mikið fjármagn erlendis og eins og kom fram í aðdraganda bankahrunsins var rætt um að reyna að færa það fjármagn heim. Ein rökin fyrir því að lífeyrissjóðunum sé gert kleift að koma heim með þetta fjármagn hafa líka verið að þeir komi þá inn í tryggt umhverfi þannig að þeim sé óhætt að vera hér með þessa fjármuni. Það er auðvitað eitt af því sem maður hefði viljað sjá, að lífeyrissjóðirnir gætu með tryggum hætti komið heim með sinn gjaldeyri og lagt hann til inn í uppbygginguna hér heima.

Sagt er að það sé ákveðin mótsögn í því að þetta vari stutt en auðvitað hafa allir átt þá ósk að við náum tökum á gjaldmiðlinum, krónunni í þessu tilviki, þannig að hann verði á einhverju eðlilegu gengi. Það komu ekki fram margar tillögur um hvernig hægt væri að festa hann en þarna er valin ein aðferð til að reyna það. Tekst það eða tekst það ekki? Það er ekki mitt að svara því en mikill meiri hluti hagfræðinga hefur mælt með þessari leið og þess vegna er hún lögð til. Markmiðið er að ná tökum á verðbólgunni með því að laga gengið og þar með kostnað heimilanna. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem drífur verðbólguna eins og aukinn kostnaður á innflutningi til matar og annars.