136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:51]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mig langar að ræða aðeins um það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um en tel rétt að gera það í ræðu frekar en í andsvari vegna þess að þá hef ég aðeins lengri tíma til að ræða málin.

Það sem ég vék að í máli mínu varðandi verðtrygginguna var að ég benti á að við núverandi ástæður þyrftum við að frysta ástandið meðan við erum að ná tökum á þeim vanda sem við erum í, þ.e. varðandi uppreikning lána og því að fólk skuli þurfa að greiða þau til langrar framtíðar. En megininntakið er að reyna að afnema verðtrygginguna. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfiðara og snúnara að öllu leyti að afnema verðtryggingu þegar verðbólgan er mikil og í því ástandi sem nú er en allt að einu, þetta eru jú mannanna verk, eins og kom réttilega fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það eru mannanna verk að ákveða hver viðmiðunin er. Ég leyfi mér að halda því fram að núverandi viðmiðun sé alls ekki heilög. Það eru engin rök fyrir því að byggja á henni til framtíðar, þ.e. að vera með sérstaka vísitölutryggingu á krónunni miðað við verðbólgu.

Vissulega er ástæða til að menn horfi frekar til launavísitölunnar og miði við hana. Allar þessar viðmiðanir, vísitölur, geta gengið í ýmsar áttir. Þó held ég að það sé meira samræmi í því að horfa til launavísitölunnar en annars vegna þess að tekjur fólks aukast þá væntanlega samhliða því að lánin hækka ef menn miða við launavísitöluna. En í dag horfum við á kaupmátt launþeganna hrapa niður en lánin hækka um leið. Þar við bætist svo eignabruninn. Það er því ekki bara verið að gera eignir fólks verðlausar eins og hlutirnir ganga núna heldur vaxa skuldirnar miklu hraðar en tekjurnar. Það er algerlega andstætt hagsmunum launafólks að hafa ástandið eins og það er.

Hvað er þá til ráða? Það eru auðvitað margar aðferðir. Menn geta ákveðið að breyta vísitöluviðmiðuninni í framtíðinni. Ég minni líka á að þegar verðtrygging var sett á fyrir mörgum árum kom hún í áföngum. Þá var það pólitísk ákvörðun og lagaákvörðun að ákveðinn hluti húsnæðismála, sem mig minnir að hafi verið 45%, tæki upp fulla verðtryggingu þegar það var gert. Síðan minnir mig að verðtryggingin hafi verið sett á í öðrum áfanga og svo að fullu en það hafi tekið einhver ár. Ég hef ekki flett þessu upp nákvæmlega en ef minni mitt bregst mér ekki var þetta einhvern veginn svona. Verðtryggingin kom í áföngum. Ég var að byggja á þessum tíma og tók lán sem ekki var verðtryggt og það hvarf bara á verðbólguárunum. Næsta lán var svo að hluta til með verðtryggingu og síðan var að lokum full verðtrygging á lánum og byggingu lokið. Þetta eru mannanna verk og mannanna viðmiðanir.

Eins og nú háttar til þegar við horfum á fjölskyldur tapa öllum eignum sínum í lækkandi kaupmætti í yfirstandandi erfiðleikum í þjóðfélaginu getum við ekki litið vísitölu verðtryggingar sem svo heilaga að hvergi megi að henni koma. Það er alveg útilokað að mínu viti. Hvort við gerum það með því að taka upp viðmið við launavísitölu eða hvort við ákveðum einfaldlega að í 20% verðbólgu megi aldrei reikna hærri verðtryggingu en t.d. 10% eru það bara aðferðir út af fyrir sig. Ég skal ekki fullyrða um hvaða aðferð er best í þessu en við óbreytt ástand getur íslenska þjóðin alls ekki búið.