136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:56]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stend upp í lokin aðallega til að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og ýmsar þær athugasemdir og ábendingar sem komið hafa fram. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni og reyndar fleirum að vitaskuld er frumvarpið sem hér um ræðir ekki nægilegt til að taka á þeim mikla vanda sem blasir við heimilunum í landinu. Eins og ég minntist á í framsögu minni sjáum við sjá verulega aukningu umsókna um greiðsluerfiðleikalán t.d. hjá Íbúðalánasjóði, 127% aukningu á fyrstu 10 mánuðum þessa árs í samanburði við stöðuna á sömu mánuðum á sl. ári og við sjáum verulega aukningu núna á fyrstu 11 dögum þessa mánaðar.

Ljóst er að frumvarpið dugar hvergi eitt og sér en ég kom inn á það að við höfum þegar gripið til ýmissa aðgerða í samráði og samvinnu við Íbúðalánasjóð sem ég ætla ekki að endurtaka hér og þetta er einn liður í því máli. Ég minni líka á að það er auðvitað eins og hér kom fram full ástæða til að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Að hluta til taldi ég mig gera það með því að fara í félags- og tryggingamálanefnd og gera grein fyrir þeim helstu málum sem eru til skoðunar til að verja heimilin vegna greiðsluerfiðleika og fór yfir þau mál sem við erum að skoða. Teknar hafa verið upp allar þær tillögur sem hafa komið fram opinberlega í þessu máli og þær allar skoðaðar. Sumar sem hér hafa verið nefndar, eins og að meta hvort lífeyrissjóðir eða Íbúðalánasjóður fái heimild til að fjárfesta í húsnæði að hluta eða í heild og leigja aftur til einstaklinga, eru í skoðun. Það virðast vera ákveðnir erfiðleikar í því en engum hugmyndum sem koma utan frá er kastað út af borðinu. Þá er ég að tala um hugmyndir frá öðrum en stjórnarliðum. Allt er skoðað sem við fáum upp á borðið og engu er kastað að óathuguðu máli. Þannig eru ýmsar hugmyndir enn til skoðunar sem við munum væntanlega sjá á næstu dögum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi eitt atriði sem við erum að skoða. Það er að koma í veg fyrir misgengi lána og launa. Ég mun vitaskuld hafa samráð við stjórnarandstöðuna um það mál, ég tala nú ekki um ef við þurfum að flýta því á þinginu. Þá má ekki bara skella málinu inn í þingið og ætlast svo til að það sé afgreitt á örstuttum tíma. Ég vil skoða það með stjórnarandstöðunni ef það kemur snöggt upp.

Eins nefndi ég frumvarp um greiðsluaðlögun sem ég tel afar brýnt að afgreiða, helst fyrir jól. Ég vildi gjarnan sjá það afgreitt fyrir jól en það er aðallega á forræði dómsmálaráðherra. Ég vonast til þess að við getum samþykkt málið fyrir þann tíma og það virkilega hjálpar fólki sem komið er í þá stöðu að sjá ekkert fram undan nema að missa heimili sín. Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að afgreiða málið á þinginu þar sem við höfum rætt það í svo mörg ár. Það hefur verið í gildi á hinum Norðurlöndunum lengi og hefur gagnast þar vel.

Ég tel líka brýnt að við sjáum fyrr en seinna í land varðandi heildstæða aðgerðaáætlun sem við grípum til til að verja heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er mjög brýnt að slík aðgerðaáætlun sjái dagsins ljós.

Ég ætla ekki að endurtaka þau úrræði sem við fórum yfir í félags- og tryggingamálanefnd. Það er ýmislegt sem við þurfum að skoða. Ég held að við hljótum t.d. að skoða dráttarvaxtafyrirkomulagið sem er með allt öðrum hætti en á hinum Norðurlöndunum. Hér höfum við stýrivexti plús ákveðið vaxtaálag sem er mjög hátt á Íslandi samanborið við á hin Norðurlöndin. Vaxtaálagið er á bilinu 7–15% og Seðlabankinn hefur í langan tíma nýtt sér 11% ofan á stýrivexti sem er náttúrlega glapræði eins og staðan er nú. Dráttarvextir eru nú hátt í 30%. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem við höfum verið að skoða.

Annað er mjög mikilvægt og kom fram hjá ýmsum þingmönnum, þ.e. að standa vörð um Íbúðalánasjóð — eða eins og einn þingmaður sagði, guð hjálpi okkur ef hann væri ekki til núna. En við verðum auðvitað að passa upp á að allar aðgerðir sem við förum í taki mið af fjárhagslegri stöðu sjóðsins, að við gerum ekkert sem setji Íbúðalánasjóð á hliðina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum það í huga.

Ég get verið sammála ýmsu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og reyndar einnig því sem síðasti ræðumaður sagði um verðtrygginguna en ég held að eins og staðan er núna sé ekki tímabært að afnema hana. Þá yrðu innleiddir hér mjög háir vextir og ég hygg að aðgangur að lánsfé yrði mjög erfiður ef við afnæmum verðtrygginguna í þessari stöðu en það er eitthvað sem við hljótum að stefna að í framtíðinni.

Varðandi leiguna sem hér hefur verið nefnd sem er partur af frumvarpinu sem við ræðum hefur lengst af verið heimilt að leigja íbúð sem Íbúðalánasjóður yfirtekur í einn mánuð. Það er ekki langt síðan það var framlengt í þrjá mánuði og lengur ef um var að ræða börn á skólaaldri sem voru í slíkri íbúð. Við erum auðvitað að tala um lengra svigrúm í breytingunni sem við gerum nú og opna fyrir, eins og hér hefur komið fram, að gerðir séu samningar t.d. við sveitarfélögin um leigu á íbúðum. Ég held að það sé jákvæð aðgerð í þeirri stöðu sem við erum í núna.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en þakka fyrir umræðuna og vonast til að sem fyrst verði hægt að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi.