136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

strandsiglingar.

39. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Jón Bjarnason, en ásamt honum flytja tillöguna sá sem hér stendur og hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Kolbrún Halldórsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2009.“

Ég legg áherslu á að það er kannski mikilvægara nú en oft áður að þessi tillaga verði tekin alvarlega. Hér voru strandsiglingar um áratugaskeið við Íslandsstrendur, mikið var fjárfest í höfnum og mannvirkjum sem síðan hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Öllum sem skoðað hafa málið ber saman um að frá umhverfislegu sjónarmiði og þjóðhagslegu er þetta skynsamleg ráðstöfun. Það virðast allir leggjast á sveif í orði en skort hefur á að menn séu tilbúnir að fylgja þessu eftir í verki.

Þessi tillaga hefur verið lögð fram áður, og nokkuð oft, á 127., 128., 131., 132., 133. og 135. löggjafarþingi, og er nú lögð fram að nýju, örlítið breytt.

Ég vísa til umræðu sem fram hefur farið um þetta þingmál í þingsal. Ég vísa til greinargerðar sem fylgir frumvarpinu og ætla ekki að fjölyrða um það meira. Ég legg til að málinu verði vísað til samgöngunefndar að umræðu lokinni.