136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

strandsiglingar.

39. mál
[18:25]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er gamall kunningi eins og fleiri mál sem mælt er fyrir í dag og er um strandsiglingarnar. Sá sem hér stendur er einn af flutningsmönnum tillögunnar og telur að hún eigi fyllsta rétt á sér, hún sé bæði þjóðhagslega hagkvæm og einnig umhverfislega hagkvæm. Hún muni leiða til þess að þjóðvegir landsins verði ekki fyrir því mikla álagi sem er í dag vegna þungaflutninga meðal annars og eðlilegt sé að tekist verði á við málið. Það er líka eðlilegt að vekja athygli á því að krafa hefur verið um að reyna að koma strandsiglingunum á á nýjan leik, við Íslendingar erum ekki einir um að ræða það eða vilja framkvæma það. Á vegum Evrópusambandsins hefur verið lagt til — þeir hafa heimilað fyrir sitt leyti sérstaka styrki, að ríkisstjórnum sé heimilt að styðja við strandflutninga með því að styrkja flutningana og efla þannig samkeppnisstöðu sjóflutninga. Núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur iðulega talað fyrir því að eðlilegt væri að koma upp strandflutningum á nýjan leik og tryggja að þeir komist á með því að taka m.a. á því að bjóða út ákveðnar siglingaleiðir sem njóti þá ákveðinna styrkja o.s.frv.

Það er svo sem ekki mikið meira um þetta að segja. Þessi þingsályktunartillaga hefur, eins og ég segi, oft verið flutt hér áður. Ég vænti þess að hún fái nú afgreiðslu. Ég tel það til mikilla bóta, hæstv. forseti, eins og ég sagði áður, bæði þjóðhagslega og umhverfislega, að standa að því að sjóflutningar við strendur Íslands verði aftur settir á laggirnar umfram það sem nú er með okkar ferjuflutningum, sem eru á þremur stöðum, þ.e. til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn og yfir Breiðafjörð og síðan á Eyjafirði út í Hrísey og Grímsey.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að málið fái jákvæða umfjöllun og komi hér inn í þing að nýju eftir þá umfjöllun og fáist afgreitt sem ályktun Alþingis við 2. umr.