136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

42. mál
[18:51]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra hæstv. iðnaðarráðherra taka svona vel í þessa tillögu okkar þingmanna Suðurkjördæmis sem flytjum þessa þingsályktunartillögu. Auðvitað eru ómældir möguleikar í ferðamannaþjónustu í Vestmannaeyjum og það er gott að vita af því að hæstv. iðnaðarráðherra verður hjálplegur við að byggja hana upp og aðstoða Vestmannaeyinga og aðra landsmenn við það.

Þingsályktunartillagan gengur út á að finna staðsetningu og áætla kostnaðarverð á þeim þremur stöðum sem koma til greina. Ég hvet menn til þess að horfa á þetta sem framtíðarverkefni og horfa þá ekki endilega á ódýrustu lausnina strax ef það þýðir að fara þarf fljótlega aftur í auknar framkvæmdir. Ef til vill má lengja uppbygginguna þótt hún verði dýrari fyrir utan Eiði en inni í höfninni. Þrengslin inni í höfninni verða nokkur hvort sem byggt er á móti Klettsvík eða innan hafnar og erfiðara verður að athafna sig þar, sérstaklega í vondu veðri.

Hv. þm. Árni Johnsen minnist á helli í Kópavogi — eftir því sem ég best veit er hann staðsettur í Kópavogi. (Gripið fram í.) En það eru ýmsir möguleikar í ferðaþjónustu víða. Suðurnes og á Suðurland eru mesta ferðamannaparadís landsins og ... (Gripið fram í: og þótt víðar væri leitað) — já, í heiminum og þótt víðar væri leitað, eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á hér áðan. Möguleikarnir eru margir og miklir og auðvitað þurfum við að nýta þá eins og allt annað til gjaldeyris- og atvinnusköpunar í landinu. Ég vænti þess og veit að eftir yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra eigum við bakhjarl og stuðning hans vísan til góðra mála.