136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eftir hrun bankakerfisins hefur vandi íslensku þjóðarinnar verið gríðarlegur. Neyðarlög voru sett en því miður virðast þau hafa kveikt fleiri elda en þeim var ætlað að slökkva. Það sem mig langar hins vegar að ræða í dag er sá mikli vandi sem hin svokölluðu smáu fjármálafyrirtæki eða mörg þeirra standa frammi fyrir. Í mínum huga liggur fyrir að stór hluti þess vanda er til kominn vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í kjölfar neyðarlaganna. Til að mynda ákvað Seðlabankinn að gera veðköll í hinum svokölluðu endurhverfanlegu viðskiptum sem getur sett þann hluta fjármálakerfisins á hliðina, kerfi sem enn er á lífi og nýtur trausts bæði hérlendis og erlendis.

Nú eru að renna út frestir sem fyrirtækin hafa fengið en því miður er enn algerlega á huldu hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera. Ég beini því þeirri spurningu til hv. formanns efnahags- og skattanefndar hvort ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að mörg þeirra fyrirtækja sem vel hafa verið rekin með hátt eiginfjárhlutfall megi lifa eða hvort aðgerðaleysið eigi að láta þau fara niður með kjölsogi bankanna.

Í annan stað vil ég spyrja hvort hv. þingmaður muni beita sér fyrir því að nýju bankarnir sem eru að fullu í eigu íslenska ríkisins gæti jafnræðis og kaupi skuldabréf og víxla út úr peningamarkaðssjóðum smærri fjármálafyrirtækja á sama verði og þeir keyptu hin svokölluðu verðlausu ástarbréf út úr eigin peningamarkaðssjóðum. Því miður virðist mér svo að afar lítill áhugi sé á viðræðum.

Það er eins og ríkisstjórnin sé á hlaupum út og suður með slökkvitækið án þess að vita hvort þar sé í olía eða slökkviduft. Ég tel því afar mikilvægt að fá úr því skorið hvort og þá hvernig leysa eigi hinn stóra vanda sem mörg hinna minni fjármálafyrirtækja standa nú frammi fyrir.