136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka upp það mál sem hann ræddi í þessari umræðu. Enn á ný ræðum við í þingsölum Alþingis hið stóra viðfangsefni samfélagsins sem eru efnahagsmálin, staða þeirra, peningamálakreppan, bankakreppan. Það kemur eina ferðina enn fram hér að þingið sjálft er býsna vanmáttugt í þessari umræðu allri. Mér finnst standa upp úr að mikið skorti á að góðar upplýsingar séu látnar þinginu í té og reyndar þjóðinni allri. Það er það sem þjóðin kallar eftir á mótmælafundum, í fjölmiðlum, þar sem fólk kemur saman og kvartar yfir því að það vanti upplýsingar um það sem vakir fyrir stjórnvöldum, hvað þau ætla sér að gera í einstökum málum.

Sparisjóðirnir sem hér eru sérstaklega gerðir að umtalsefni eru liður í þessari fjármálakeðju allri. Þeir eru afar mikilvægir og hafa gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki hver á sínum stað um áratuga skeið. Það væri ákaflega sorglegt ef við þyrftum að horfa á eftir þeim sömu leið og viðskiptabönkunum. Við horfumst nú í augu við gerbreyttar aðstæður á bankamarkaði. Væntanlega munu hlutverk bankanna breytast núna. Hér verða fyrst og fremst hefðbundnir viðskiptabankar og þá er sparisjóðakerfið mjög ákjósanlegt til að byggja á. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að auðvitað á að byggja á þeirri félagslegu hugsun sem þeir voru reistir á í upphafi og flestir hverjir hafa starfað eftir, að vísu ekki allir en það er ekki of seint að beina þeim þá í þann farveg sömuleiðis.