136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er mjög þörf og góð umræða. Það er mjög nauðsynlegt að leysa þennan vanda og ég tel það brýnasta verkefni stjórnvalda og Alþingis að halda þeim stofnunum gangandi sem eru gangandi í dag þannig að ekki komi til gjaldþrota. Það má breyta um eignarhald á ýmsa vegu eins og ég nefndi. Kröfuhafar geta komið inn sem hluthafar, jafnt ríki sem aðrir kröfuhafar. Það getur jafnvel farið svo að núverandi eigendur hverfi nánast en stofnanir þurfa að starfa. Ég nefni þar sérstaklega Sparisjóðabankann sem einu hreinu „kennitöluna“ sem Íslendingar eiga gagnvart útlöndum og það er mjög mikilvægt að halda honum við.

Staða minni fjármálastofnana er afskaplega mismunandi. Sumar hafa gott eigið fé og standa umrótið af sér ljómandi vel, aðrar ekki. Þeir sem standa verr þurfa að fá inn nýja hluthafa, þ.e. kröfuhafa og ríkið hugsanlega, en hinir geta staðið með nægilegri lánafyrirgreiðslu. Ég held að það eigi að leysa málið þannig. (Gripið fram í: Frá ríkinu?) — Frá t.d. öðrum kröfuhöfum, þeir lengi í lánum sínum og svo framvegis.

Varðandi neyðarlögin og vanmáttugt þing sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi er þingið ekki vanmáttugt. Það setti neyðarlög sem bjargaði íslenska fjármálakerfinu. Það virðist hafa gleymst að bankarnir héldu greiðslukerfinu gangandi, þeir héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist. Við gátum notað debet- og kreditkortin okkar og keypt í matinn sem við ella hefðum ekki getað. Það sem gert var á örstuttum tíma var allt að því kraftaverk, að bjarga greiðslukerfinu og fjármálakerfinu. Við skulum ekki gleyma því.

Varðandi sanngirni er fjölmargt ósanngjarnt búið að gerast í þjóðfélaginu. Tugir þúsunda manna hafa tapað hlutafénu sínu alfarið (Forseti hringir.) þannig að sanngirnin er ekki mjög mikil.