136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í tilefni af ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, varðandi komu fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og annarra úr fjármálaráðuneytinu á fund fjárlaganefndar þar sem var greint frá, eins og þingmaðurinn gat um, 385 milljarða kr. aukins fjármagns til hinna nýju banka, vil ég vekja athygli á því að ekki kom fram á fundinum hvort þetta væri aukið hlutafé í bankana eða hvort þetta væri fjármagn til þess að styrkja með einhverjum öðrum hætti eiginfjárstöðu bankanna. Ekki komu heldur svör við því hvort þetta fé hefði verið nýtt til þess að greiða þær skuldbindingar sem hinum nýju bönkum var gert að taka að sér í peningamarkaðssjóðum upp á að talið er í kringum 200 milljarða kr., hvort það hafi strax gengið út af þessum 380 milljörðum sem var verið að veita til bankanna. Öll umræða og fyrirspurnir um það hvernig þessar skuldbindingar varðandi peningamarkaðssjóðina komu inn í nýju bankana og svör um þau mál voru mjög óljós og var vísað á viðskiptaráðherra í þeim efnum.

Hér er um að ræða tengdar skuldbindingar hjá bönkum sem með takmörkuðum hætti eru búnir að fá sína eiginfjárstöðu og ég vil láta það koma fram hér, frú forseti, að þessi viðskipti öll, þessi skipti öll nýju bankanna, framlag ríkisins, aukið framlag til þeirra, kostnaður vegna yfirtöku á skuldbindingum vegna (Forseti hringir.) peningamarkaðssjóðanna, er allt að mínu viti of óljóst. Þessu þarf að skýra frá alveg hreint, beint og skorinort.