136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það kom fram á fundinum með fjárlaganefnd og kemur fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hann er að rugla þarna saman tveimur hlutum, annars vegar því að ríkið þurfti að endurreisa hluta af gömlu bönkunum og til þess að það sé hægt þarf að setja inn í þá nýtt eigið fé til þess að CAD-hlutfallið sé nægjanlega hátt til þess að þeir séu starfhæfir og hins vegar viðskiptalegum ákvörðunum sem teknar eru í bönkunum varðandi það hvernig þeir leysi úr málum hinna svokölluð peningamarkaðssjóða. Þar hefur fjármálaráðherrann enga aðkomu að. Það er á vegum bankastjórnanna og bankaráðanna að taka slíkar ákvarðanir og mér finnst vera hálfgerð þversögn í því, eins og mér finnst hafa komið fram hjá hv. þingmanni og reyndar flestum í hv. þingheimi, að það er ekki ætlast til þess að fjármálaráðherrann eða stjórnmálamenn yfirleitt séu að hlutast til um þær ákvarðanir sem bankaráðin og bankastjórnirnar eiga að taka. Þar af leiðandi finnst mér það vera þversögn í málflutningi hv. þingmanns þegar hann fer að draga þetta einstaka mál inn í það hvernig staðið er að því að endurreisa bankana til þess að tryggja það að hér sé áfram og viðvarandi bankastarfsemi innan lands.