136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

afnám tóbakssölu í fríhöfnum.

73. mál
[13:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Aðalfundur Læknafélags Íslands sem haldinn var nýlega samþykkti ályktun um tóbaksvarnir sem hefur vakið athygli. Þar var m.a. bent á að hér á landi geisar faraldur sem rekja má til reykinga og dregur hundruð manna til dauða árlega. Hvatti aðalfundurinn til þjóðarátaks til að draga úr tóbaksnotkun á næstu 15 árum.

Í greinargerð með ályktuninni er m.a. bent á að eftir lagasetningu sem nýverið takmarkaði óbeinar reykingar, m.a. með banni á reykingum á veitingastöðum hefur bráðum hjartaþræðingum fækkað hérlendis. Ég vil bæta við að þetta er í samræmi við reynslu og rannsóknir annarra þjóða.

Þetta dæmi sýnir að verulegs ávinnings má vænta af aðgerðum sem draga úr tóbaksnotkun. Reykingar valda fleiri dauðsföllum hérlendis en nokkur annar lífsstílstengdur áhrifaþáttur og á tímabilinu 1995–2004 mátti rekja um 18% af dauðsföllum til reykinga. Því valda reykingar miklum þjóðhagslegum kostnaði bæði beint og óbeint.

Í skriflegu svari við fyrirspurn minni um tóbakssölu í fríhöfnum sem hæstv. fjármálaráðherra svaraði nýverið kemur fram að 2007 var heildarsala vindlingapakka tæpar 15 milljónir og um 8% af heildarsölu í fríhafnarverslunum. Þá kom fram að verð á vindlingapakka í fríhöfn er um 299 kr. eða 47% af verði á algengri tegund út úr búð sem er um 620 kr. Var áætlað tekjutap ríkisins vegna sölunnar talið vera um 490 millj. kr. á síðasta ári. Jafnframt kom fram það sjónarmið að ef þessi sala yrði felld niður í fríhöfnum hérlendis mundi hún færast til annarra landa og hafa áhrif til minnkaðra umsvifa fríhafnarverslana hér á landi. Þá kom einnig fram að engar lagalegar hindranir stæðu í vegi fyrir niðurfellingu á tóbakssölu í fríhöfnum.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðum fríhafna í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi í gær og miðað við gengi gærdagsins kostar sígarettukartonið í fríhöfninni í Kaupmannahöfn um 4.000 kr. og um 4.500 kr. í fríhöfninni í Stokkhólmi. Kartonið af sígarettum kostar um 3.000 kr. í íslensku fríhöfninni í Keflavík og er verðið því mun lægra en hjá nágrannalöndum okkar.

Í fríhöfn landsins hefur sá hluti þjóðarinnar sem ferðast til útlanda aðgang að ódýru tóbaki, mun ódýrara en í fríhöfnunum í kringum okkur og á hálfvirði miðað við útsölustaði í landinu. Verðmunurinn er það mikill að hann hvetur til aukinna kaupa á vörunni. Ljóst má vera að aðgengi að ódýru tóbaki í fríhöfn hér á landi er í andstöðu við heilbrigðisstefnu þjóðarinnar og í hróplegu ósamræmi við stjórnvaldsaðgerðir sem við höfum beitt til að hafa áhrif til minnkunar á neyslu tóbaks. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji koma til greina að hætta sölu tóbaks í fríhafnarverslunum.