136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini spurningu til hæstv. fjármálaráðherra sem fer nú með hina nýju ríkisbanka. Fyrirspurnin hljóðar svo: Hyggst núverandi eigandi viðskiptabankanna, íslenska ríkið, draga til baka kæru bankanna á hendur Íbúðalánasjóði til Eftirlitsstofnunar EFTA eða svokallaðs ESA-dómstóls?

Við þekkjum sögu undanfarinna missira að viðskiptabankarnir, einkavæddu bankarnir, kærðu starfsemi Íbúðalánasjóðs til ESA-dómstólsins. Kærðu hann fyrir að vera í krafti ríkisábyrgðar og taka á ýmsan hátt viðskipti sem bankarnir töldu sig ekki hafa möguleika á að keppa um en vildu gera. Við höfum haft stjórnvöld sem hafa lýst yfir að þau vilji einkavæða Íbúðalánasjóð og koma honum inn í bankana að hluta eða öllu leyti. Umræðan hefur verið mjög á dreif hvað þetta varðar en stöðugt verið sótt að tilveru Íbúðalánasjóðs.

Nú gerum við okkur rækilega grein fyrir því hversu mikilvægt það var fyrir okkur að hafa getað spornað gegn einkavæðingu Íbúðalánasjóðs. Að geta nú átt Íbúðalánasjóð með þeim hætti sem hann er í dag til að taka á þeim gríðarlegu verkefnum sem bíða og eru þegar komin upp varðandi íbúðalán fólks.

Þess vegna hlýtur að liggja beint við til að eyða allri óvissu í málinu um kæru viðskiptabankanna á hendur Íbúðalánasjóði til Eftirlitsstofnunar EFTA að hún sé dregin til baka og málið gjörsamlega látið niður falla. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki hafi þegar verið tekin ákvörðun um og gripið til formlegra aðgerða til að afturkalla kæru bankanna, sem nú eru komnir í hendur ríkisins, á hendur (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóði.