136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég held að þjóðin sé alveg gáttuð á svari hæstv. fjármálaráðherra. Á ekki að draga þessa kæru til baka? Kröfuhafinn á kæruna og getur dregið hana til baka. Ef eftirlitsdómstóllinn telur að hann hafi ekki öðrum merkilegri verkefnum að sinna úti í Evrópu en að taka upp kæruna er það hans mál. En það á að koma fram pólitísk yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda um að við ætlum að standa vörð um Íbúðalánasjóð og hann á ekki að fara á evrópskan markað. Þegar við sitjum uppi með fjármálaráðherra sem ekki hefur dug eða döngun í sér til þess að segja ákveðið, skýrt og skorinort, að við ætlum að kalla þessa kæru til baka — sem yrði pólitísk yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að við ætlum að standa vörð um Íbúðalánasjóð — hlýtur þjóðin að verða fyrir vonbrigðum. Það er veruleikafirring hjá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni að segja: Málið er bara í kæruferli og við kippum ekki kærunni til baka. Við heimtum að kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði, kæran sem nú er í höndum ríkisstjórnar Íslands, verði dregin til baka þegar í stað.