136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Mér finnst athyglisvert hvað hægt er að æsa sig mikið yfir hlutum sem ekki skipta neinu máli (JBjarn: Æsa sig yfir Íbúðalánasjóði? Já.) og greinilegt að hv. þingmaður er enn að sporna gegn því að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur. Ég kannast ekki við að það hafi verið lagt til á hv. Alþingi, að ég hafi nokkru sinni nefnt það eða það hafi nokkru sinni verið á stefnuskrá flokks míns eða þeirra ríkisstjórna sem hann hefur átt aðild að að svo væri. (Gripið fram í: Átti ekki að gera hann að hlutafélagi?) En það er greinilega eitthvað (Gripið fram í.) sem er hv. þingmönnum mjög hugstætt og ... (Gripið fram í.) — ef frú forseti gæti séð til þess að ég mætti klára ræðu mína án þess að stöðugt sé gripið fram í. Það er eitt sem mér heyrist koma fram hjá hv. þingmönnum og gæti skipt máli í þessu tilliti, það eru mjög breyttar aðstæður á fjármálamörkuðum bæði hér og erlendis. Það gæti út af fyrir sig haft áhrif á endanlegt mat ESA í þessu máli. (ÖJ: Ekki á hnjánum, Árni.)

Síðan varðandi það, frú forseti, að standa í lappirnar gæti komið að því ef niðurstaða ESA væri sú að eitthvað sé athugavert við kerfið, ef fram kæmu athugasemdir sem við vildum ekki taka til greina og ekki bregðast við, gæti ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins. Þá gætum við þurft að verja okkur. Það er þá sem hugsanlegt er að standa þurfi í lappirnar í þessu máli en ekki fara í einhverja hluti sem ekki skipta neinu máli og hafa engin áhrif á það ferli sem þegar er komið í gang.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að gefa ræðumönnum hljóð þegar þeir eru í ræðustóli.)