136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Jóni Bjarnasyni, fyrir að vekja máls á þessu. Það er nefnilega eðlilegt að spurt sé því að hæstv. ráðherra sagði á Alþingi í síðustu viku, eins og ég skildi hana, að ekki ætti að halda þessu máli til streitu. Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra upp, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og segir að málið eigi að ganga sinn veg. Ég skil ekki á hvaða vegferð hæstv. ríkisstjórn er, frú forseti.

Hvor stjórnarsáttmálinn er uppi núna? Er það stjórnarsáttmáli Samfylkingarinnar eða stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokksins? Maður er gersamlega orðinn ringlaður. Hverjir stýra þessu samfélagi? Hæstv. ráðherra hefur talað um að standa eigi vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Af hverju í ósköpunum dregur þá ríkisstjórnin ekki kæru ríkisbankanna til baka eins og hún getur gert? Af hverju? Er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að það verði gert? Á málið að ganga sinn veg? (Forseti hringir.) Það er eðlilegt að spurt sé. Hver stýrir þessu ríkisstjórnarfleyi? Ætlar ríkisstjórnin sér að hafa (Forseti hringir.) tvær skoðanir í málefnum Íbúðalánasjóðs eins og í flestum öðrum málum sem snerta íslenskan almenning?