136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

hæfi við ákvarðanir er varða Kaupþing.

118. mál
[14:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Stjórnsýslulög voru sett fyrir rúmum fimmtán árum. Í þeim eru ákvarðaðar meginreglur stjórnsýslunnar og með hugtakinu „stjórnvald“ er átt við þau embætti, stofnanir og aðra, sem fara með framkvæmdarvald. Ráðherrar eru æðsti hluti framkvæmdarvaldsins og lögin gilda um þá í störfum sínum.

Í stjórnsýslulögum eru skýr ákvæði um hæfi og sérstaklega um vanhæfi til þess að tryggja vandaðar og óvilhallar ákvarðanir ráðherranna. Þar segir m.a. að sá sem er aðili máls sé vanhæfur og einnig er um vanhæfi að ræða ef maki tengist málinu. Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.

Það er vissulega umdeilanlegt hvort þessar lagareglur gilda um ákvarðanir sem teknar eru á ríkisstjórnarfundum eða í samráði einstakra ráðherra. En ég tel það ákaflega óeðlilegt ef vanhæfisástæðum er vikið til hliðar í slíkum tilvikum. Málefni viðskiptabankanna hafa verið á borði ríkisstjórnarinnar og ákvarðanir þar mótaðar af samráði milli forustumanna stjórnarflokkanna. Það er augljóst að engu hefur verið ráðið til lykta á þessum vettvangi án aðkomu varaformanns Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra hafi hún á annað borð viljað hafa afskipti af þeim málum.

Nú er komið í ljós að ráðherrann tengist Kaupþingi fjárhagslega mjög verulega og almennt eru það nægilegar ástæður til þess að ráðherra verði vanhæfur um meðferð mála og því spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra sig hafa fullt og óskorað hæfi til þess að koma að yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum þremur og ákvörðunum er varða nýju bankana, sérstaklega Kaupþing?

Menntamálaráðherra hefur lýst opinberlega yfir að það sé gjörsamlega óþolandi að vera sett í óþægilega stöðu vegna hlutafjárkaupa í Kaupþingi og segir að allt verði að koma upp á borðið og allir að tala af hreinskilni. Ráðherra hefur síðan ekki frekar gert grein fyrir málinu í aðkomu sinni að ákvörðunum svo sem þeirri að ákveðið var að verja Kaupþing einan banka og lána honum háa fjárhæð. Það er því knýjandi að ráðherra skýri málavöxtu frekar en fram hefur komið þannig að leggja megi mat á aðkomu ráðherrans að málinu sem augljóslega varðaði persónulega hagsmuni hennar.