136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

hæfi við ákvarðanir er varða Kaupþing.

118. mál
[14:38]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Til svars þessarar fyrirspurnar vil ég strax í upphafi árétta að menntamálaráðherra fer ekki með málefni banka eða hefur komið að ákvörðunum um stofnun eða rekstur hinna nýju banka. Af ákvæðum stjórnarskrár og reglugerðum stjórnarskrár Íslands leiðir að viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn þessara mála. Spurningin um hæfi menntamálaráðherra í þessu samhengi á því ekki við.

Hvað viðkemur setu minni sem menntamálaráðherra í ríkisstjórn Íslands vil ég taka fram að ríkisstjórnin fer hér ekki með stjórnsýsluvald og hefur því ekki lögum samkvæmt verið falið að taka ákvarðanir í þeim málum sem fyrirspyrjandi vísar til. Í þessu samhengi vil ég með leyfi forseta vísa til umfjöllunar á blaðsíðu 223–225 í doktorsritgerð Páls Hreinssonar, nú hæstaréttardómara, en þar segir:

„Ríkisstjórnin verður á hinn bóginn almennt ekki talin stjórnsýslunefnd enda eru ráðherrar hver á sínu sviði í reyndinni æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins og fara með yfirstjórn stjórnsýslunnar hver á sínu sviði nema hún sé að lögum falin öðrum. Það er því yfirleitt ekki í verkahring ríkisstjórnar að taka stjórnvaldsákvarðanir enda þjóna ráðherrafundir fyrst og fremst því hlutverki að vera pólitískur samráðsvettvangur ráðherra.“

Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er, hún er fyrst og fremst pólitískur samráðsvettvangur. Hún er ekki, eins og margir hafa haldið, fjölskipað stjórnvald. Það er mikill misskilningur í samfélaginu að hún sé það og sérstaklega er það tekið fram í lögum m.a. í Svíþjóð og Noregi, að mig minnir. Þar gilda aðrar stjórnsýslureglur um ríkisstjórn út af þeirri sérstöku aðstöðu sem ríkisstjórnin er í.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að íslensk stjórnskipun gerir ekki ráð fyrir því að menntamálaráðherra fari með mál er varða banka og fjármálastarfsemi í landinu. Þá gera íslensk lög heldur ekki ráð fyrir því að ríkisstjórnin taki hér formlegar ákvarðanir um réttindi og skyldur manna. Reglur um hæfi mitt sem menntamálaráðherra, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eiga hreinlega ekki við varðandi þær ákvarðanir sem vísað er til í fyrirspurninni.

Í þessu ljósi vil ég sérstaklega árétta það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi það lán sem Kaupþing fékk 6. október síðastliðinn upp á 500 millj. evra til nokkurra daga en það var veitt af Seðlabankanum sem er mjög sjálfstæð stofnun. Þar hef ég engin áhrif. Ákvarðanir um yfirtöku viðskiptabankanna voru teknar af Fjármálaeftirlitinu, sem er líka algjörlega sjálfstæð stofnun, á grundvelli svonefndra neyðarlaga.

Ákvarðanir þessar voru því teknar af þar til bærum stjórnvöldum og beindust fyrst og fremst að því sem allir vita sem hafa fylgst með að því að verja almannahagsmuni. Að sjálfsögðu var undirbúningur neyðarlaganna og setning þeirra rædd í ríkisstjórn enda beinlínis gert ráð fyrir því í starfsreglum ríkisráðsins að á ráðherrafundum séu tekin til umfjöllunar lagafrumvörp ráðherra. Almenn samstaða var síðan um setningu neyðarlaganna. Með lögunum voru Fjármálaeftirlitinu fengnar heimildir til nauðsynlegra aðgerða á fjármálamarkaði, þar með talið að yfirtaka starfsemi viðskiptabankanna.

Frú forseti. Að endingu vil ég segja að það liggur í augum uppi að mál sem varða alla íslensku þjóðina með þeim hætti sem hér hefur orðið í samfélaginu voru að sjálfsögðu rædd ítarlega í ríkisstjórn enda gerir stjórnskipun okkar eins og áður segir ráð fyrir því að ráðherrar geti átt samráð og leitað pólitískrar samstöðu um einstök mál. Að halda því fram að í því geti falist einhvers konar hagsmunaárekstur eða aðkoma að ákvörðunum um einkamálefni einstakra ráðherra stenst að sjálfsögðu ekki. Ríkisstjórnin er fyrst og fremst pólitískur samráðsvettvangur. Hún er ekki fjölskipað stjórnvald.