136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

hæfi við ákvarðanir er varða Kaupþing.

118. mál
[14:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ekki get ég sagt að svörin komi mér mjög á óvart. Ráðherrann fer í hina formlegu hlið mála. Eins og kom fram í máli mínu áðan er það vissulega umdeilanlegt hvort stjórnsýslulögin eigi við um ákvarðanir og samráð sem á sér stað á ríkisstjórnarfundum.

Hitt held ég að geti varla verið umdeilanlegt að lagaákvæði um hæfi og vanhæfi sem sett hafa verið hér og gilda almennt í þjóðfélaginu, ekki bara á stjórnsýslu ríkisins heldur líka sveitarfélaga og um stjórnmálamenn sem sitja í sveitarstjórnum, eiga að mati ráðherra ekki við þegar þau tala saman á ríkisstjórnarfundum eða á öðrum fundum til að ráða málum til lykta.

Það finnst mér dapurlegt vegna þess að séu tiltekin sjónarmið sem leiða til þess að um vanhæfi sé að ræða gilda þau sjónarmið jafnvel þótt menn færi sig úr ráðherrastólnum í sínu eigin ráðuneyti yfir í ráðherrastólinn í ríkisstjórninni. Það eru nákvæmlega sömu sjónarmið sem liggja þar að baki og leiða til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Og það er dapurlegt ef þetta er viðhorf ráðherra í ríkisstjórninni að ráðherrar séu hæfir til að fjalla um hvaðeina sem menn kjósa að taka þar upp, jafnvel málefni sem varða þá persónulega og fjárhag þeirra mikið. Það er dapurlegt ef það er skilningur ráðherranna að það sé allt í lagi vegna þess að hin formlega ákvörðun er tekin annars staðar síðar þótt hin pólitíska afstaða sé tekin á þessum fundum. Það er auðvitað það sem máli skiptir. Það er þar sem hlutirnir eru ákvarðaðir og þess vegna eru ríkisstjórnarfundir haldnir, til að ná hinni pólitísku niðurstöðu sem einstakir ráðherrar hrinda í framkvæmd í samræmi við hana.