136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

hæfi við ákvarðanir er varða Kaupþing.

118. mál
[14:44]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég hef ítrekað sagt að það þurfi að ríkja gegnsæi í þessum hlutum. En ef fara á eftir því sem hv. þingmaður segir á í raun að lama alla umræðu í ríkisstjórn.

Ekki dettur mér í hug að segja að hv. þingmaður sem á maka, og sá er launaður formaður Félags hjúkrunarfræðinga, sé vanhæfur hér í þessum þingsal að fjalla um málefni hjúkrunarfræðinga eða um málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss og heilbrigðisstéttanna. Það kemur mér ekki hug. Mér dettur ekki í hug að fullyrða slíka þvælu.

Í öðru lagi vil ég benda á að til að mynda hafa mjög mætir menn verið í ríkisstjórn Íslands í gegnum tíðina sem hafa verið bændur eða tengst bændum. Að sjálfsögðu hafa þeir ekki verið vanhæfir að fjalla um landbúnaðarmálefni í ríkisstjórninni, að sjálfsögðu ekki af því það er pólitískur samráðsvettvangur og það er lykilatriði. Það er lykilatriði í öllu þessu.

Það sem skiptir miklu máli hér — og ég fagna því sem heyrst hefur að það sé að nást þverpólitísk sátt um að skoða það sem gerst hefur. Þá verður að sjálfsögðu að fara yfir alla þætti þessa máls sem leitt hefur til hruns fjármálakerfisins. Það þarf að velta við öllum steinum. Það þarf til að mynda að skoða hvað forsvarsmenn fyrirtækja hafa gert rangt í athöfnum sínum. Það sama þarf að gerast varðandi eftirlitsstofnanir. Það sama þarf að gerast varðandi Seðlabankann. Og það sama þarf að sjálfsögðu að gerast varðandi Alþingi og stjórnmálamenn. Við verðum að læra af sögunni þannig að við náum að nýta reynsluna sem við höfum öðlast þar, bitra sem sanna, fyrir börnin okkar til þess að byggja upp betri framtíð.