136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

vistakstur.

95. mál
[14:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Frú forseti. Við orkuvanda, loftslagsbreytingar og hörmuleg umferðarslys síðustu ár hefur athygli áhugamanna og sérfræðinga um samgöngur og umferð m.a. beinst að vistakstri, þeim vinnubrögðum við akstur bifreiða sem beinast að ýtrasta eldsneytissparnaði. Saga vistaksturs er orðin nokkur hérlendis, ökukennarar byrjuðu að huga að honum í tengslum við norræna félaga sína fyrir um sjö eða átta árum. Samtök þeirra og einstakir ökuskólar hafa staðið fyrir námskeiðum í vistakstri, m.a. fyrir atvinnubílstjóra og hafa þátttakendur látið vel af. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því framtaki Landverndar að flytja hingað ökuherma fyrir vistakstur, m.a. fyrir atbeina hæstv. samgönguráðherra. Þessir hermar hafa vakið mikinn áhuga og er skemmst að minnast frækilegs sigurs hæstv. forsætisráðherra í sérstakri vistaksturskeppni á ráðstefnu um vistvænar bifreiðar.

Ávinningur vistaksturs er þrefaldur. Eldsneytissparnaður er allt að 10%, að því er starfsmenn Landverndar segja, útblástur minnkar, og við vitum hvað það þýðir, og slysum fækkar, menn aka varlegar, huga betur að aksturslagi sínu o.s.frv. Til að ná árangri verðum við að hafa í huga að vistakstur á ekki að vera einhvers konar jaðarsport eða fyrir sérstaka áhugamenn, hann þarf að snerta alla sem koma að akstri og þá skiptir máli að ungir og nýir ökumenn tileinki sér þessi fræði frá upphafi og líti á vistakstur sem eðlilegt aksturslag.

Í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni í vor kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra að talsvert starf væri í gangi í þessum efnum og breyta ætti lögum og reglugerðum. Þess vegna spyrjum við Mörður Árnason varaþingmaður: Hvað líður undirbúningi þessara breytinga?

Í annan stað hefur verið starfshópur að störfum til að efla vistakstur og því spyrjum við Mörður Árnason einnig hvenær megi vænta tillagna frá starfshópnum.

Ég veit að hæstv. samgönguráðherra er mikill áhugamaður um málið sem og öryggi í umferð og þess vegna geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra svari spurningunum fúslega og með gleði.