136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

vistakstur.

95. mál
[14:49]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson og Mörður Árnason hafa lagt fyrir mig tvær spurningar. Sú fyrri er svohljóðandi:

„1. Hvenær má búast við að starfshópur sem nú er að störfum til að efla vistakstur skili tillögum sínum?“

Með mikilli gleði segi ég að tillögur starfshóps um vistakstur hafa verið afhentar mér, en þeim er ætlað að hvetja til að einstaklingar og fyrirtæki geri vistakstur að sjálfsögðum hlut í daglegu starfi sínu. Tillögurnar eru í aðalatriðum eftirfarandi:

1. Áróðursherferð og vitundarvakning meðal almennings. Gefinn verður út bæklingur þar sem kostir og hugmyndafræði vistaksturs eru dregin fram. Með auglýsingum verður almenningur hvattur til að kynna sér vistakstur og tileinka sér slíkan akstur í þágu hagkvæmni, umhverfis og aukins umferðaröryggis.

2. Ökukennarafélag Íslands hefur verið í fararbroddi fyrir kynningu á vistakstri. Félagar þess eru reiðubúnir að standa fyrir námskeiðum fyrir almenning og mun samgönguráðuneytið m.a. bjóða starfsmönnum sínum að sýna gott fordæmi með því að sækja slík námskeið. Hvatt verður til þess að einstaklingar sem og fyrirtæki sæki slík námskeið.

3. Beina mætti þeirri hugmynd til tryggingafélaga að veita afslátt af iðgjöldum bílatrygginga þeirra ökumanna sem sýna fram á staðfesta þátttöku í námskeiði í vistakstri.

4. Samgönguráðuneytið styður kynningu ríkisstjórnarinnar á vistakstri með ökuhermum sem hleypt var af stokkunum síðla sumars í samstarfi við ýmsa aðila.

Með vistakstri er talið að draga megi úr eldsneytisnotkun um 10%–12%. Það hefur í för með sér hagkvæmari rekstur bíla og minni útblástur mengandi lofttegunda. Með hugmyndafræði vistaksturs verða ökumenn meðvitaðri um daglegan akstur sinn og sýna meiri ábyrgð í akstri sem skilar sér í auknu umferðaröryggi.

Samgönguráðherra hvetur til að menn gefi gaum að vistakstri og bendir á að árangursríkasta leiðin til að tileinka sér slíkan akstursmáta er að sækja námskeið hjá ökukennara.

Virðulegi forseti. Önnur spurningin hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi breytinga á lögum og reglugerðum til að gera vistakstur að formlegum hluta ökunáms?“

Í skýrslu starfshóps samgönguráðherra um ökukennslu, ökupróf, starfsleyfi ökukennara og starfsleyfi ökuskóla sem lögð var fram í september 2008 koma fram ýmsar tillögur um aukið vægi vistaksturs í ökunámi. Eftir er að vinna úr tillögunum en stefnt er að því að sú vinna fari af stað nú á næstunni. Felst hún m.a. í endurskoðun á reglugerð um ökuskírteini en lagt er til í skýrslunni að reglugerðinni verði skipt í tvennt, annars vegar reglugerð um ökuskírteini og hins vegar reglugerð um ökunám, ökupróf og endurmenntun ökumanna.

Í skýrslunni er lagt til að 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar hljóði svo, með leyfi forseta:

„Við samningu námskrár á grundvelli þessarar reglugerðar er ráð fyrir því gert að nemendum í grunnskóla sé veitt umferðarfræðsla í samræmi við viðmið þar um og stefnt skuli að því að allir nemendur í efstu bekkjum grunnskólans (8.–10. bekk) stundi á vegum viðkomandi grunnskóla aðfaranám að ökunámi. Þar sé áhersla m.a. lögð á umhverfislega þætti sem umferð tengjast, farandfræðilega þætti, kostnaðarþætti bæði fyrir einstaklinga sem og samfélagið í heild ásamt nauðsynlegustu umferðarmerkingum og fræðslu um eðli umferðar.“

Enn fremur leggur starfshópurinn til að þegar bráðabirgðaskírteini er endurnýjað og sótt er um fullnaðarskírteini skuli handhafi þess hafa lokið akstursmati hjá ökuskóla sem fengið hefur heimild til að hafa með höndum akstursmat. Í akstursmati skuli annars vegar kanna hvort mat ökumanns á eigin hæfni og akstursháttum séu í samræmi við raunverulega getu hans og hins vegar hvort hann hafi tamið sér vistvæn viðhorf í akstri sínum. Nauðsynlegt er að endurskoða námskrá vegna ökunáms til að gera vistakstur skilgreindan hluta ökunáms og verður það gert í tengslum við endurskoðun reglugerðar um ökuskírteini.