136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

vistakstur.

95. mál
[14:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tíðindin í svari hans. Ljóst er að þetta er eitt af því sem varðar daglegt líf allra, þ.e. umferðin og aksturinn, ekki síst núna þegar eldsneytisverð er mjög hátt og margir sem eiga ekki mikla peninga. Þá skiptir miklu að menn komist leiðar sinnar á sem ódýrastan hátt og hluti af því er að temja sér vistakstur.

Mjög ánægjulegt er að í væntanlegri reglugerð er tekið sérstaklega á þessum málum og lagt fyrir að þau eigi að vera í ökunámi og almennu námi í grunnskólum. Það er mjög gott og vona ég að þeir sem standa að umferðarfræðslu í skólum, eins og t.d. í Grundaskóla á Akranesi, og hafa sérstakt hlutverk, hugsi um þetta og ég veit að þetta er í efni þeirra.

Annað sem lýtur að vistakstri og hlýtur að koma inn í umræðuna er akstur utan vega. Mjög mikilvægt er að fólk átti sig á því þegar það ekur utan vega, sem er ólöglegt, að það getur skaðað náttúruna og umhverfi okkar sem tekur mörg ár að bæta.

Að lokum, frú forseti, vil ég bara ítreka þakklæti mitt til hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og vona að allt sem hann hefur í hyggju með þetta og ráðuneytið leiði til góðs.