136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

vistakstur.

95. mál
[14:56]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim fyrirspyrjendum Merði Árnasyni varaþingmanni og hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir fyrirspurnina og vona að svar mitt hafi sýnt fram á að við í samgönguráðuneytinu viljum vinna að þessu verkefni og teljum okkur vera að gera það. Eins og kom fram í fyrirspurn og ræðu hv. þingmanns er aðalatriðið að fólk, íbúar þessa lands, ökumenn temji sér vistakstur sem eðlilegt aksturslag. Það er kannski það mikilvægasta. Eitt er að sækja námskeið, sem er jú ágætt, en menn geta líka dálítið lært þetta með því að fylgjast með ökuhraða og hvernig þeir keyra. Það er einmitt það sem ég vildi m.a. geta hér um, virðulegur forseti, vegna þess að á heimasíðu Vegagerðarinnar eru nýjar upplýsingar sem sýna að hraði ökutækja hefur minnkað og það er mjög ánægjulegt bæði út frá umferðaröryggismálum og ekki síst út af þessu.

Ætli fólk hafi ekki, virðulegi forseti, m.a. út af háu bensín- og olíuverði gefið meiri gaum að því að mikill aksturshraði og miklar akstursbreytingar gera það að verkum að bílar eyða miklu eldsneyti og það hafi áhrif. Vonandi er að hraði hafi líka minnkað út af þessu.

Þótt það sé ekki endilega tengt þessu, virðulegur forseti, þá sjást líka á hinni ágætu heimasíðu Vegagerðarinnar upplýsingar um að síðustu þrjá ef ekki fjóra mánuði hefur umferð á landinu minnkað töluvert, þannig að allt þetta hefur áhrif.

Ég ítreka virðulegi forseti, þakkir til fyrirspyrjenda fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn.