136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

aukalán LÍN.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan fulltrúar Sambands íslenskra námsmanna erlendis komu á fund menntamálanefndar og óskuðu eftir aðgerðum vegna hruns íslensku krónunnar. Í framhaldinu kynnti hæstv. menntamálaráðherra ákveðnar aðgerðir, þeirra á meðal hækkun vaxtastyrks, nýja gengisviðmiðun og lækkun tekjuskerðingar. En veigamest þeirra aðgerða var þó líklega aukalán vegna ófyrirséðrar röskunar á högum lánþega erlendis.

Ástandið núna hlýtur að teljast röskun á högum okkar allra, ekki síst námsmanna erlendis. Lánin sem nemendur höfðu reiknað með hafa lækkað mjög vegna hruns krónunnar og sú lækkun er á framfærslugrunni sem fyrir var sparlegur, svo ekki sé meira sagt. Reyndar hafa verið kröfur uppi af hálfu námsmannahreyfinganna í landinu um að endurskoða framfærslugrunninn mörg undanfarin ár og að gerð verði ný neyslukönnun sem undirstaða grunnsins. En spurning mín til ráðherra varðar þau aukalán sem kynnt voru.

Svo virðist sem til að aukalán verði veitt verði námsmaður að geta sýnt fram á sára neyð sem ekki er skilgreind frekar og mig langar að spyrja: Fyrir hverja er þetta aukalán og hvernig er þessi sára neyð skilgreind? Því yfir mig og aðra nefndarmenn og vafalaust hæstv. ráðherra rignir nú bréfum frá námsmönnum sem spyrja: Hvaða gögnum á ég að skila til að geta sýnt fram á hina sáru neyð? Hvernig á að skilgreina þessa röskun? Með leyfi forseta leyfi ég mér að vitna í eitt þessara bréfa þar sem námsmaður erlendis spyr: Hvað er sár neyð? Er aukalán bara fyrir þá sem hafa orðið fyrir gengisfalli og því búnir með námslánin sín mun fyrr en ella? Er það bara fyrir þá sem eiga ekki mat og eigum við þá að senda mynd af hinum tóma ísskáp sem aukagögn? Er það fyrir þá sem eru með framfærslu í erlendri mynt, lán á Íslandi sem auðvitað hefur rokið upp og framfærslan því orðin skuggalega lág? Er það neyð að geta ekki gefið jólagjafir? Er það neyð að geta ekki keypt flugfar heim til Íslands um jólin? Hvað er sár neyð? Hvernig er hægt að skilgreina hana og hver mun skilgreina hana? Munu námsmenn fá í raun einhverja tilhliðrun frá lánasjóðnum út af því ástandi sem nú er?