136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir smærri fjármálafyrirtækja.

[10:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. viðskiptaráðherra. Tilgangurinn er sá að fylgja eftir fyrirspurn minni um peningamarkaðssjóðina sem ég bar fram fyrir viku síðan. Nú hefur komið í ljós að ríkisbankarnir neita að kaupa skuldabréf úr peningamarkaðssjóðum smærri fjármálafyrirtækja á sama verði og þeir keyptu þau út úr sjóði sínum fyrir skemmstu. Þetta stangast á við yfirlýsingar hæstv. viðskiptaráðherra um að uppkaup í sjóðunum hafi verið viðskiptaleg ákvörðun bankanna og að fyllsta jafnræðis yrði gætt.

Glitnir hefur gefið hinum smærri fjármálafyrirtækjum afsvar við því að kaupa bréf úr sjóðnum og hinir tveir ríkisbankarnir vilja ekki kaupa skuldabréfin á grundvelli sama verðmats og þeir keyptu bréf úr eigin sjóðum samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu í morgun. Viðskiptaráðherra svaraði fyrirspurn minni á þann veg að viðræður væru hafnar milli viðeigandi ráðuneyta og smærri fjármálafyrirtækja um afdrif peningamarkaðssjóða þeirra. Hann sagði auk þess að öllu máli skipti að gæta jafnræðis. Nú segja aftur á móti hin smærri fjármálafyrirtæki að engar slíkar viðræður séu í gangi við stjórnvöld og spyrja um leið: Af hverju er jafnræðis ekki gætt? Af hverju kaupa stóru ríkisbankarnir ekki bréfin á sama verði og þeir mátu sín eigin bréf? Það er enginn munur á þessum eignum og því spyr ég hvort þetta sé ekki klárt og skýrt brot á samkeppnislögum. Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra: Er ekki þeim mun brýnna að endurskoða það sem hér kemur fram og gæta fyllsta jafnræðis?