136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

kostnaður við varalið lögreglu.

[10:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Hér er mjög óvarlega talað um héraðslögreglumenn. Ég held að þeir hafi reynst ákaflega vel í áranna rás og óþarft að tala til þeirra með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði.

Varðandi það að ráða þá til starfa sem koma úr Lögregluskólanum er unnið að því í ráðuneytinu að búa þannig um hnútana að það verði hægt, vonandi. Alþingi á eftir að fjalla um fjárlög ársins 2009 og taka afstöðu til þeirra mála.

Varðandi Suðurnesin sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega hef ég lagt fram ákveðnar skýrar tillögur um hvernig eigi að taka á fjárhagsvandanum þar og sem betur fer er vaxandi fylgi við þær tillögur eins og fram hefur komið, m.a. með ákvörðunum Tollvarðafélags Íslands um að mæla með því að Ísland verði allt eitt tollumdæmi. Ég skora á alþingismenn að afgreiða það mál hér fyrir áramótin þannig að hægt verði að vinna í samræmi við það.