136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

heræfingar Breta í íslenskri lofthelgi.

[10:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. iðnaðarráðherra, starfandi utanríkisráðherra eða a.m.k. fyrrverandi starfandi utanríkisráðherra. Hæstv. ráðherra hefur haft gaman af því að taka það fram af og til á undanförnum dögum, bæði í þinginu og í viðtölum við fjölmiðla, að hann sé starfandi utanríkisráðherra. Ég vil eiga orðastað við hann vegna afstöðu hans til tiltekins máls, þ.e. fyrirhugaðs herflugs Breta hér á Íslandi í jólamánuðinum.

Ég segi ósköp einfaldlega, herra forseti: Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta. Það misbýður Íslendingum af ástæðum sem allir skilja ef Bretar eiga að koma hér og leika sér með sín hertól á aðventunni á okkar kostnað. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, virðist ætla að skilja þannig við málið að Bretar eigi að ráða því sjálfir hvort þeir komi hingað. Það er fráleitt. Það er fráleitt að skilja þannig við málið, það er fráleitt að eyða í það peningum. Samkvæmt fréttum stendur nú til að skera þróunaraðstoð Íslands niður við trog. Það er ömurlegt. Það eru dapurleg skilaboð til umheimsins. Það er yfirlýsing um annað tveggja, að við Íslendingar lítum svo á að við séum orðið þróunarríki og það sé þá árangurinn af starfi manna hér undanfarin ár að þeir hafi komið Íslandi í slíka stöðu, eða yfirlýsing um að við séum svo sjálfselsk að við viljum ekki leggja okkar af mörkum til fátækustu þjóða heimsins. Hvorugt er heppileg yfirlýsing af Íslands hálfu um þessar mundir, á hvorugu þurfum við að halda.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur haft uppi hörð orð og lýst sig algerlega andvígan því að Bretar kæmu hér, talaði um ofbeldi í okkar garð af þeirra hálfu og fleira í þeim dúr. Nú skora ég á hæstv. iðnaðarráðherra að standa við stóru orðin og beita sér fyrir því að hingaðkoma Bretanna verði afþökkuð.