136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

heræfingar Breta í íslenskri lofthelgi.

[10:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir og afstaða hans virðist vera skýr og ljós og má segja að í fyrradag, þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók málið upp, hafi birst þverpólitísk samstaða um að afþakka eigi flug Breta. En hér talaði hæstv. iðnaðarráðherra eins og hann væri Jón Jónsson úti í bæ og hann hefði þessa persónulegu skoðun (Iðnrh.: Nei ...) en það er ekki svo. Hæstv. iðnaðarráðherra er ráðherra og situr í ríkisstjórninni og hefur verið starfandi utanríkisráðherra á undanförnum dögum. Hæstv. ráðherra verður því að gera betur og það er ekki hægt að skilja svona við málið að annars vegar virðist þverpólitísk samstaða um að það eigi að afþakka þetta, ráðherrar í ríkisstjórninni tala hér svert um það og rökstyðja þá afstöðu sína að fráleitt sé að Bretar komi hingað en ætla svo ekki að gera neitt.

Ég skora á hæstv. iðnaðarráðherra að koma og útlista fyrir okkur hvernig hann ætlar að beita sér fyrir því að afstaða hans, og að því er virðist þingsins í heild sinni, nái fram að ganga. (Forseti hringir.) Því miður afgreiddi utanríkismálanefnd ekki tillögu mína um að nefndin kæmi þeim skilaboðum til stjórnvalda að það bæri að afþakka þetta, þess í stað verður fundað með hæstv. ráðherra. En það er ekki hægt að hafa málið svona afvelta.